Kvika vill skoða samruna við Íslandsbanka

Kvika kveðst telja samruna við Íslandsbanka skapa fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki.
Kvika kveðst telja samruna við Íslandsbanka skapa fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki.

Íslandsbanka hefur borist erindi frá stjórn Kviku banka hf. þar sem óskað er eftir afstöðu stjórnar Íslandsbanka til þess að hefja samrunaviðræður. Stjórn Íslandsbanka mun taka erindið til umræðu í næstu viku og ákveða næstu skref af hálfu bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum til Kauphallarinnar.

Í tilkynningu Kviku kemur fram að stjórn Kviku telji samruna félaganna skapa fjárhagslega sterkt fjármálafyrirtæki með dreifðan tekjugrunn. „Í sameinuðu félagi væri mögulegt að veita viðskiptavinum aukna þjónustu og leiða til meiri samkeppni á fjármálamarkaði, meðal annars með fjártæknilausnum, auk þess sem sameinað félag yrði áhugaverður fjárfestingakostur,“ segir þar jafnframt.

Tekið er fram að ekki þyki ástæða til að ákveða á þessari stundu hvor bankanna yrði yfirtökufélagið eða hvort og að hvaða marki dótturfélög bankanna myndu sameinast. Það færi eftir heildarmati á viðskiptalegum, skattalegum og samkeppnislegum sjónarmiðum sem myndi eiga sér stað ef formlegar viðræður hefjast.

Fram kemur að stjórn Kviku vænti þess að fá afstöðu frá stjórn Íslandsbanka á næstu dögum.

Markaðsvirði hlutabréfa í Íslandsbanka var í lok viðskipta í dag 234 milljarðar, en markaðsvirði Kviku var 91,7 milljarðar. Til samanburðar er markaðsvirði Arion banka í dag 227,3 milljarðar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK