Englandsbanki hefur hækkað stýrivexti sína úr 3,5% upp í 4% til að reyna að stemma stigu við mikilli verðbólgu. Þetta er tíundi fundur peningastefnunefndar bankans þar sem ákveðið er að hækka vexti. Hafa stýrivextir bankans ekki verið jafn háir í meira en 14 ár, eða síðan í fjármálakrísunni í október 2008.
Greiningaraðilar höfðu spáð hækkuninni, en ljóst er að hún mun hafa áhrif á lántakendur, bæði húsnæðiseigendur og rekstraraðila fyrirtækja.
Ákvörðun bankans var ekki einróma, en 7 nefndarmenn vildu hækka vextina á móti tveimur sem vildu halda þeim óbreyttum.
Samkvæmt samantekt sem fylgdi ákvörðun nefndarinnar gerir bankinn nú ráð fyrir að verðbólga hafi náð hámarki í Bretlandi sem og í öðrum þróuðum hagkerfum.
Jeremy Hunt, fjármálaráðherra Bretlands, hefur þegar gefið út að hann styðji hækkunina með vísun til þess að hún sé til að mæta verðbólgu, sem sé stærsta ógnin við lífsgæði í landinu.
Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði einnig stýrivexti sína í gær, en peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun tilkynna um ákvörðun sína næsta miðvikudag.