Tveggja milljarða hagnaður og tvöfölduðu eignasafnið

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 2,1 milljarð á síðasta ári, samanborið við 1,34 milljarða árið áður. Félagið meira en tvöfaldaði eignasafn sitt á milli ára.

Hagnaður félagsins fyrir skatta var 2,6 milljarðar samanborið við 1,8 milljarða árið áður. Matsbreyting fjárfestingaeigna nam á árinu 2,5 milljörðum samanborið við 1,2 milljarða árið áður.

Fasteignir félagsins eru í dag um 85 þúsund fermetrar, en til viðbótar bætast 5.700 fermetrar sem samið hefur verið um kaup á en verða afhentir á þessu ári. Af eignum félagsins voru 71.500 fermetrar í útleigu, en 13.500 fermetrar verða afhentir á þessu ári í leigu.

Í ársreikningi eru fjárfestingareignir um áramótin metnar á 41,7 milljarða samanborið við 18,1 milljarð árið áður, eða aukning um 131%.

Leigutekjur félagsins námu 1,7 milljarði á árinu samanborið við 233 milljónir árið áður. Eigið fé félagsins var um áramótin um 20,1 milljarður og var eiginfjárhlutfallið 45,5%. Fram kemur í tilkynningu með uppgjörinu að félagið muni á þessu ári gefa út skuldabréfaramma, en hluti kaupa félagsins á síðasta ári var fjármagnaður með útgáfu nýrra hlutabréfa í Kaldalóni.

Í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar er haft eftir Jóni Þór Gunnarssyni, forstjóra Kaldalóns, að hann sé ánægður með rekstur og niðurstöðu ársins. „Kaldalón hefur á skömmum tíma orðið fasteignafélag og komið sér í ákjósanlega stöðu vaxtar. Félagið er vel fjármagnað og eiginfjárstaða þess er mjög sterk, eða 45,5%. Félagið er einkar vel í stakk búið til að takast á við þær breytingar í ytra umhverfi sem nú eiga sér stað,” er þar haft eftir honum.

Þá segir hann jafnframt í tilkynningunni að félagið muni halda áfram að stækka og að trú sé á því að langtímahorfur í íslensku atvinnulífi séu mjög góðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK