Arnar Már aftur í framkvæmdastjórn Play

Arnar Már Magnússon hefur snúið aftur til Play.
Arnar Már Magnússon hefur snúið aftur til Play. mbl.is/Hari

Arnar Már Magnússon, flugstjóri og einn af stofnendum Play, mun senn taka aftur við sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs félagsins. Arnar var framkvæmdastjóri sviðsins þar til fyrir rúmu ári þegar hann ákvað að setjast aftur í flugstjórasætið í fullu starfi. Arnar Már er einn af stofnendum Play og var forstjóri á sprotastigi flugfélagsins á árunum 2019-2021 áður en félagið hóf sig til flugs.

Arnar tekur við framkvæmdastjórastöðunni af Guðna Ingólfssyni sem mun láta af störfum á næstunni.  Guðni hefur verið framkvæmdastjóri sviðsins frá því í mars 2022, að því er fram kemur í tilkynningu frá Play. 

„Ég er ofsalega ánægður með að fá Arnar Má aftur í framkvæmdastjórn PLAY á þessum tímapunkti, úthvíldan og til í slaginn með okkur.  Arnar hefur verið lykilmaður í sögu PLAY enda einn af stofnendum félagsins. Arnar var öflugur liðsmaður framkvæmdastjórnar félagsins áður en hann ákvað að háloftin kölluðu og það er gott að fá krafta hans aftur inn í framkvæmdastjórn PLAY á þessu mikilvæga ári í sögu félagsins. Ég veit að  flugrekstrarsviðið verður í góðum höndum hjá Arnari.  Á sama tíma vil ég þakka Guðna Ingólfssyni kærlega fyrir vel unnin störf síðasta árið á mikilvægum uppbyggingartíma félagsins. Ég óska honum jafnframt góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play.

„Eftir rúmlega eitt viðburðarríkt og afar skemmtilegt ár hjá PLAY hef ég ákveðið að láta af störfum.   Á þessum tímamótum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa kynnst frábæru fólki sem starfar hjá fyrirtækinu. Ég óska samstarfsfólki mínu góðs gengis og hlakka til að fylgast með velgengni PLAY á komandi mánuðum og árum,“ er haft eftir Guðna Ingólfssyni.

Þá greinir félagið frá því að sætaframboðið í sumar muni aukast um nærri 77% miðað við sumarið 2022 og þá munu fjórar nýjar flugvélar bætast við flotann. Play mun í ár fljúga til hátt í 40 áfangastaða og verður með tíu vélar í rekstri. Þá tekur félagið við um það bil 200 nýjum starfsmönnum og starfsmenn félagsins verða orðnir um 500 talsins í sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK