Í fínu fiskiríi á góðum slóðum

Það hefur verið gott fiskirí hjá áhöfninni á Steinunni SH …
Það hefur verið gott fiskirí hjá áhöfninni á Steinunni SH í vetur. Hafa náðst tæplega 1.300 tonn. mbl.is/Sigurður Bogi

Skipverjar á Ólafsvíkurbátnum Steinunni SH fiskuðu alls 1.295 tonn í vetur og verðmæti aflans er 454 milljónir króna. Þorskar í þúsundavís við Öndverðarnes og á Vetrarbrautinni. Fimm bræður um borð og skipverjar allir úr sömu fjölskyldu.

Stafirnir á klukkunni stóðu lóðrétt þegar lagt var frá byggju í Ólafsvík. Endanum var kippt inn fyrir borðstokkinn af hressum körlum sem stóðu á dekkinu og gerðu sjóklárt. Hvert handtak var unnið af öryggi enda vanir menn. Báturinn skreið lipurlega út höfnina og fyrir sjóvarnargarðinn og svo var stefnt í vestur. Klukkan var 06:04; dagurinn 13. maí 2020.

Fengsæll vetur en leiðinlegt í sjónn

Öldurnar voru mjúkar og vaggandi; strákarnir voru í koju á útstíminu en blaðamaður var uppi í brú og fylgdist með. Tveir dragnótabátar voru í augnsýn framundan. Virtust í fínu fiskiríi á góðum slóðum út af Öndverðarnesi. Við Rif var strandveiðibátur og á skaki var sjómaður sem galt kveðjuna í líku þegar til hans var veifað.

Brynjar skipar mönnum fyrir.
Brynjar skipar mönnum fyrir. mbl.is/Sigurður Bogi

Liðinn vetur var fengsæll og góður hjá áhöfninni á Steinunni SH-167. Báturinn er 236 búttótonn, smíðaður árið 1970 og var fyrstu árin gerður út frá Grindavík undir allt öðru nafni. Síðan um 1990 hefur Steinunn SH svo verið gerð út frá Ólafsvík af útgerð sem er samnefnd bátnum. Steinunn ehf. er fjölskyldufyrirtæki í eigu bræðranna Óðins, Ægis, Brynjar og Þórs Kristmundssona sem allir eru í áhöfn. Þeir eru sömuleiðis af hinni svonefndu Stakkholtsfjölskyldu sem lengi hefur verið umsvifamikil í sjávarútvegi í þeirri miklu verstöð sem Ólafsvík er.

„Ég býst við fiskiríi, við höfum fiskað vel að undanförnu,“ sagði Brynjar skipstjóri á stíminu út af Hellissandi. Morgunfréttirnar mölluðu í Ríkisútvarpinu; kórónuveiran í algleymingi og tóm vandræði. „Reyndar hefur þessi vetur verið alveg ágætur, þrátt fyrir að oft hafi verið frekar leiðinlegt í sjóinn. Samt hefur oftast verið hægt að róa; dagarnir sem fallið hafa úr hafa ekki verið margir. Við erum alveg sáttir við vertíðina.“

Á fullum snúning

Steinunn SH hefur lengi verið gerð út á dragnót og jafnan er fiskað á sömu slóðum. Þar er átt við að góðir skipstjórnarmenn halda sig gjarnan og helst á miðum sem þeir þekkja vel og vita að fiskjar er jafnan von. Stefnan var því sett vestur og suður fyrir Öndverðarnes, en bátar úr höfnum á Snæfellsnesi eru þar mikið. Brynjar skipstjóri sagði strákunum að gera allt klárt og kasta voðinni sem þeir og gerðu. Mannskapurinn stóð aftur í skut; hver karl á sínum stað. Kaðlar og vírar rúlluðu á fullum snúningi. Nótin var svo dregin eftir bátnum svo sem í 15 til 20 mínútur en eftirtekjan var lítil. Rennslið var tekið þrívegis og í því síðasta voru um 15 tonn í voðinni. Húrra!

Áhöfnin á Steinunni. F.v.: Oddur Orri Brynjarsson, matsveinn og sonur …
Áhöfnin á Steinunni. F.v.: Oddur Orri Brynjarsson, matsveinn og sonur skipstjórans, þá bræðurnir Halldór, Óðinn, Brynjar skipstjóri, Ægir og Þór Kristmundssynir og því næst bróðursonur þeirra, Kristmundur Sumarliðason. Loks Vilhjálmur Birgsson, tengdasonur Brynjars, og Ægir Ægisson er lengst til hægri. mbl.is/Sigurður Bogi

Pokarnir úr dragnótinni voru hífðir um borð hver af öðrum; allir sneisafullir af rígvænum þorski og með slæddust ýsur og ufsar. Opnað var fyrir pokana yfir lúgu á þilfarinu og þar helltist aflinn niður á vinnsludekk. Þorskar í þúsundavís rúlluðu niður á færibandið þar sem fiskurinn var blóðgaður. Gert var að hverjum og einum fiski, sem svo rúllaði með færibandi niður í lest og þar í plastkör.

Drjúgt í voðinni

Á siglingu milli veiðislóða var hádegismatur, sem Oddur Orri Brynjarsson matsveinn eldaði. Bjúgu, kartöflur, grænmeti. Kaffi og kleinur á eftir. Þú ert ekkert sjóveikur? Hvernig líst þér á blikuna? Hefur þú verið áður á sjó? Spurningarnar buldu á blaðamanni sem hér var kominn til að kynna sér framandi veröld sjómennskunnar og miðla þeirra sögu til lesenda sinna, eins og hér sést. Kaffi, kex – hífopp og höldum af stað.

Skipstjórinn stefndi til norðausturs og tekið var eins og eitt kast á Vetrarbrautinni; sem er skammt undan Öndverðarnesi. Það fimmta og síðasta var svo tekið nánast beint norður af nesoddanum og var drjúgt í voðinni þá. En það voru vandræði með sigurnagla og eitthvað sem small ekki saman. Skipstjórinn var í símanum að leita ráða og pantaði svo nýtt stykki. Þegar sýnt var orðið um aflabrögð var hringt í land og markaðurinn látinn vita hver staðan væri. Aflinn var seldur og allt klappað og klárt áður en kúrsinn var stilltur og stefnt í land. Komið var í höfn í Ólafsvík um kl. 17.

Ævintýralegur afli

Venju samkvæmt hófu Brynjar og áhöfn hans á Steinunni SH yfirstandandi fiskveiðiár í Bolungarvík. Reru þaðan frá september og fram í nóvember. Eftir nýár var gert út frá Ólafsvík. Alls voru róðrarnir á fiskveiðiárinu 105 talsins, aflinn samanlagt 1.295 tonn og verðmæti hans 454 milljónir króna. Besta dag vertíðarinnar veiddi áhöfnin alls 84,2 tonn. Aflinn var að megninu til þorskur, hver fiskur gjarnan 5-7 kíló.

mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta var ævintýralegt. Ég hef verið til sjós frá 1966 og skipstjóri í um fjörutíu ár en aldrei fiskað jafn mikið og þennan dag og það í bræluskít. Þegar komið er fram í mars er þó alltaf mikil fiskigengd hér við Snæfellsnesið, svo hve vel tókst til þennan dag var engin tilviljun,“ segir Brynjar sem frá september og fram í maí fiskaði samanlagt 1.572 tonn.

Valinn maður í hverju rúmi

Níu manns eru í áhöfninni á Steinunni. Allir eru úr sömu fjölskyldunni og fyrr eru nefndir bræðurnir fimm: Brynjar, Ægir, Óðinn, Þór og Halldór Kristmundssynir. Einnig eru á bátnum synir tveggja fyrstnefndu bræðranna; þeir Oddur Orri Brynjarsson og Ægir Ægisson. Þá er í skipsrúmi Kristmundur, sonur Sumarliða sem var sjötti bóðirinn og lést fyrir nokkrum árum. Níundi maður í áhöfn er Vilhjálmur Birgisson, tengdasonur Brynjars skipstjóra. Valinn maður í hverju rúmi, farsælir og fiska vel!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 28.2.21 269,79 kr/kg
Þorskur, slægður 28.2.21 332,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 28.2.21 235,90 kr/kg
Ýsa, slægð 28.2.21 290,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 28.2.21 118,00 kr/kg
Ufsi, slægður 28.2.21 162,46 kr/kg
Djúpkarfi 16.2.21 189,00 kr/kg
Gullkarfi 28.2.21 164,84 kr/kg
Litli karfi 26.2.21 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 17.2.21 279,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.2.21 Tindur ÍS-235 Botnvarpa
Steinbítur 5.727 kg
Skarkoli 2.389 kg
Grásleppa 583 kg
Þorskur 535 kg
Ýsa 66 kg
Þykkvalúra sólkoli 52 kg
Ufsi 30 kg
Samtals 9.382 kg
28.2.21 Fjölnir GK-157 Botnvarpa
Tindaskata 772 kg
Samtals 772 kg
27.2.21 Einar Guðnason ÍS-303 Lína
Þorskur 7.240 kg
Steinbítur 3.144 kg
Ýsa 25 kg
Samtals 10.409 kg
27.2.21 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Ýsa 94 kg
Þorskur 50 kg
Hlýri 6 kg
Gullkarfi 1 kg
Samtals 151 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 28.2.21 269,79 kr/kg
Þorskur, slægður 28.2.21 332,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 28.2.21 235,90 kr/kg
Ýsa, slægð 28.2.21 290,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 28.2.21 118,00 kr/kg
Ufsi, slægður 28.2.21 162,46 kr/kg
Djúpkarfi 16.2.21 189,00 kr/kg
Gullkarfi 28.2.21 164,84 kr/kg
Litli karfi 26.2.21 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 17.2.21 279,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.2.21 Tindur ÍS-235 Botnvarpa
Steinbítur 5.727 kg
Skarkoli 2.389 kg
Grásleppa 583 kg
Þorskur 535 kg
Ýsa 66 kg
Þykkvalúra sólkoli 52 kg
Ufsi 30 kg
Samtals 9.382 kg
28.2.21 Fjölnir GK-157 Botnvarpa
Tindaskata 772 kg
Samtals 772 kg
27.2.21 Einar Guðnason ÍS-303 Lína
Þorskur 7.240 kg
Steinbítur 3.144 kg
Ýsa 25 kg
Samtals 10.409 kg
27.2.21 Jónína Brynja ÍS-055 Lína
Ýsa 94 kg
Þorskur 50 kg
Hlýri 6 kg
Gullkarfi 1 kg
Samtals 151 kg

Skoða allar landanir »