„Sjávarútvegur er fjölbreyttur og spennandi“

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, varaformaður Kvenna í sjávarútvegi, segir greinina fjölbreytta …
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, varaformaður Kvenna í sjávarútvegi, segir greinina fjölbreytta og spennandi. Ljósmynd/Aðsend

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er varaformaður Kvenna í sjávarútvegi og hefur sinnt formannsstörfum í fjarveru Agnesar Guðmundsdóttur. Hún er fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði, sjávarútvegsfræðingur að mennt og starfar sem verkefnastjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá Austurbrú. Þá situr hún í stjórn Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, er varaformaður stjórnar í Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og í hafnarstjórn Fjarðabyggðarhafna. Arnfríður segir sjávarútveginn vera mest spennandi atvinnugreinina hér á landi af þeim sem eru í hraðri þróun.

„Hvað hefur þú langan tíma?“ spyr Arnfríður og hlær þegar blaðamaður slær á þráðinn. Hún segist hafa svo gaman af því að tala um sjávarútveginn að hún gæti haldið blaðamanni lengi við efnið.

„Sjávarútvegur nútímans er fjölbreyttur og spennandi, með öllum þeim áskorunum og tækifærum sem hann stendur frammi fyrir. Sjávarútvegurinn í dag er svo miklu víðtækari en veiðar og vinnsla eins og hann var þegar byggðir í landinu byggðust upp á þeim stöðum þar sem var sem styst að róa á miðin og eiga í soðið fyrir sig og sína eða til vöruskipta. Greinin hefur verið í sífelldri þróun og hefur íslensku hugviti og hátækni fleygt fram innan hennar,“ segir Arnfríður. Hún segir aðkomu kvenna að sjávarútvegi vera hluta af þróun geirans og hann sé kominn langan veg frá því sem áður var, þegar einungis störfuðu karlmenn í geiranum.

Skynmat fiska kennt í sjávarútvegsskólanum á Austurlandi.
Skynmat fiska kennt í sjávarútvegsskólanum á Austurlandi. Ljósmynd/Aðsend

Arnfríður telur framtíðina og vaxtartækifærin liggja í nýtingu hliðarafurða og því sem áður var hent. „Sífellt er horft til þess að leita leiða við að fullvinna fiskinn og hafa nokkur fyrirtæki hér á landi náð frábærum árangri í fullvinnslu hliðarafurða.“

„Í dag er fiskurinn dreginn úr sjó eftir pöntunum frá heimsmarkaði sem stuðlar meðal annars að sem bestum gæðum þegar hann kemur á disk neytandans. Áhugi og kröfur neytenda á sjálfbærni og uppruna vörunnar verða sífellt meiri og má þá nefna sem dæmi íslenskan fisk í neytendapakkningum úti í heimi sem hafa QR-kóða. Neytandinn getur þá skannað hann með símanum sínum og rakið ferðalag fisksins til veiða.“

Vörur í flottustu vöruhillunum

„Ísland er lítil eyja í Norður-Atlantshafi þar sem fiskveiðar eru sjálfbærar, sú þekking sem hefur byggst upp innan sjávarútvegsins hefur skilað frábærum árangri í ferskleika og gæðum. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga mörg hver orðið vörur í flottustu hillunum á markaði.“

Arnfríður segir sjávarútveginn einnig standa frammi fyrir gríðarlegum áskorunum í dag. „Eins og Covid-19, umhverfisþættir, aukin rekjanleiki og fleira. Svo má ekki gleyma pólitískum áskorunum sem einnig eru veigamiklar. En allir þeir sem hugsa í lausnum eru fljótir að sjá að allar áskoranir leiða af sér ný og spennandi tækifæri,“ segir Arnfríður sem telur framtíðina fulla af sóknarfærum fyrir íslenskan sjávarútveg.

Markmið félagsins að gera konur sýnilegar

Félag kvenna í sjávarútvegi var stofnað árið 2013 af hópi kvenna sem fann fyrir þörf á aukinni tengingu, samstarfi og eflingu kvenna í greininni. „Margar hæfileikaríkar konur starfa innan greinarinnar og koma þær úr ýmsum áttum. Í gegnum tíðina hefur sjávarútvegurinn verið mjög karllæg grein en konum fer sífellt fjölgandi og ekki síst í frumkvöðlastarfseminni.“

Arnfríður segir að þær mættu vera duglegri við að koma fram og láta að sér kveða á opin- berum vettvangi. „En tilgangur og markmið félagsins er að styðja og styrkja konur í að stíga fram og gera konur sýnilegri bæði innan greinarinnar og utan hennar. Einnig að fá fleiri konur til liðs við okkur í sjávarútveginum og styrkja þar með tengslanet okkar allra enn frekar.“

Arnfríður segir mikilvægt að kynna félagið fyrir konum á landsbyggðinni.
Arnfríður segir mikilvægt að kynna félagið fyrir konum á landsbyggðinni. Ljósmynd/Aðsend

Hún telur tengslanet skipta gríðarlega miklu máli við ráðningu og vísar í niðurstöður rannsóknar sem félagið lét vinna fyrir sig árið 2016. „Það virðist vera sem konur séu ekki eins meðvitaðar um alla þá möguleika sem sjávarútvegurinn hefur upp á að bjóða og höfum við í félaginu því lagt okkur fram við að kynna þá með fræðsluviðburðum og fyrirtækjaheimsóknum. Við höfum haldið úti einum til tveimur fræðsluviðburðum í mánuði með aðstoð fjarfundabúnaðar í Covid-faraldrinum og förum við strax af stað í heimsóknir þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa,“ segir Arnfríður.

„Eitt af markmiðum félagsins er að efla yngri kynslóðir í sjávarútvegi, og fá yngri konur til að kynnast greininni snemma á starfsferlinum. Það er nefnilega svo að þekkingarbilið hefur breikkað síðustu ár og skiptir því miklu máli að byrja að fræða unga fólkið okkar snemma um sjávarútveginn.“

„Það er liðinn tíð að börn byrji að vinna í fiski 12 ára en þú þarft að hafa náð 18 ára aldri til þess að fá að starfa í flestum vinnslum í dag. Þegar ungt fólk hefur náð þeim aldri horfir það kannski frekar á aðrar atvinnugreinar því það þekkir sjávarútveginn ekki með öðrum hætti en sem veiðar og vinnslu.“

Arnfríður segir því mikilvægt að vinna í því að minnka þetta þekkingarbil og fræða unga fólkið okkar strax í leikskóla til að tryggja nýliðun í greininni.

Sjávarútvegsráðstefnan sterkur vettvangur

„Sjávarútvegsráðstefnan hefur skapað frábæran samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Í þeim hópi eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu, rannsóknir og þróun, opinberir aðilar, kennarar, nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn. Ráðstefnan er einmitt einn af þeim vettvöngum sem félagskonur geta nýtt sér betur til þess að stíga fram á,“ segir Arnfríður. Hún segir félagið hafa átt gott samstarf við Valdimar Inga Gunnarsson ráðstefnustjóra, og dr. Hólmfríði Sveinsdóttur, núverandi formann ráðstefnunefndar og félagskonu KIS, síðustu ár við að leita til kvenna sem hafa áhuga á að flytja erindi á ráðstefnunni.

Sjávarútvegsráðstefnan 2019
Sjávarútvegsráðstefnan 2019 mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum með stórt og greinargott félagatal sem gerir okkur auðvelt að ná til félagskvenna sem eiga erindi og hafa áhuga á umfjöllunarefni málstofanna hverju sinni. Við hlökkum einnig til áframhaldandi samstarfs með Valdimari og ráðstefnunefndinni,“ segir Arnfríður sem hvetur konur til þess að vera óhræddar við að koma fram og halda erindi, enda eigi þær erindi.

„Ég ætla að fá að enda þetta skemmtilega spjall okkar á því að vitna í orð Ástu Dísar Óladóttur, dósents í stjórnun, sjávarútvegi og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.

Ásta dró áskoranir sjávarútvegsins í dag saman í þrjú orð og sagði þær vera „eitt stórt VES“ en það er veira, eldgos og skjálftar. Ásta Dís er flott fyrirmynd kvenna og er félagi Kvenna í sjávarútvegi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 13.5.21 230,83 kr/kg
Þorskur, slægður 13.5.21 311,88 kr/kg
Ýsa, óslægð 13.5.21 280,65 kr/kg
Ýsa, slægð 13.5.21 299,38 kr/kg
Ufsi, óslægður 13.5.21 92,44 kr/kg
Ufsi, slægður 13.5.21 113,44 kr/kg
Djúpkarfi 12.5.21 136,00 kr/kg
Gullkarfi 13.5.21 163,10 kr/kg
Litli karfi 5.3.21 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 12.5.21 267,74 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.5.21 Már SU-145 Handfæri
Þorskur 456 kg
Ufsi 22 kg
Samtals 478 kg
13.5.21 Njörður BA-114 Handfæri
Þorskur 1.542 kg
Samtals 1.542 kg
13.5.21 Báran SI-086 Grásleppunet
Grásleppa 1.515 kg
Þorskur 60 kg
Skarkoli 40 kg
Samtals 1.615 kg
13.5.21 Gísli EA-221 Grásleppunet
Grásleppa 1.014 kg
Samtals 1.014 kg
13.5.21 Þorleifur EA-088 Þorskfisknet
Ufsi 6.349 kg
Þorskur 414 kg
Gullkarfi 87 kg
Samtals 6.850 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 13.5.21 230,83 kr/kg
Þorskur, slægður 13.5.21 311,88 kr/kg
Ýsa, óslægð 13.5.21 280,65 kr/kg
Ýsa, slægð 13.5.21 299,38 kr/kg
Ufsi, óslægður 13.5.21 92,44 kr/kg
Ufsi, slægður 13.5.21 113,44 kr/kg
Djúpkarfi 12.5.21 136,00 kr/kg
Gullkarfi 13.5.21 163,10 kr/kg
Litli karfi 5.3.21 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 12.5.21 267,74 kr/kg

Fleiri tegundir »

13.5.21 Már SU-145 Handfæri
Þorskur 456 kg
Ufsi 22 kg
Samtals 478 kg
13.5.21 Njörður BA-114 Handfæri
Þorskur 1.542 kg
Samtals 1.542 kg
13.5.21 Báran SI-086 Grásleppunet
Grásleppa 1.515 kg
Þorskur 60 kg
Skarkoli 40 kg
Samtals 1.615 kg
13.5.21 Gísli EA-221 Grásleppunet
Grásleppa 1.014 kg
Samtals 1.014 kg
13.5.21 Þorleifur EA-088 Þorskfisknet
Ufsi 6.349 kg
Þorskur 414 kg
Gullkarfi 87 kg
Samtals 6.850 kg

Skoða allar landanir »