Tjá tilfinningar með hnefanum

Samfélagsmál | 6. desember 2019

Tjá tilfinningar með hnefanum

Endurtekið ofbeldi eykur líkur á áfallastreituröskun og fólk sem upplifir fjögur eða fleiri áföll í æsku er í miklu meiri áhættu þegar kemur á fullorðinsár. Er þrefalt líklegra til að upplifa kvíða og fjórfalt líklegri til vera þunglynt. Eins er það þrjátíufalt líklegra til að hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta kom fram í erindi Eddu Bjarkar Þórðardóttur, doktors í lýðheilsuvísindum í gær. 

Tjá tilfinningar með hnefanum

Samfélagsmál | 6. desember 2019

Áföll í æsku auka líkur á heilsufarsvanda síðar á lífsleiðinni.
Áföll í æsku auka líkur á heilsufarsvanda síðar á lífsleiðinni. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Endurtekið ofbeldi eykur líkur á áfallastreituröskun og fólk sem upplifir fjögur eða fleiri áföll í æsku er í miklu meiri áhættu þegar kemur á fullorðinsár. Er þrefalt líklegra til að upplifa kvíða og fjórfalt líklegri til vera þunglynt. Eins er það þrjátíufalt líklegra til að hafa gert tilraun til sjálfsvígs. Þetta kom fram í erindi Eddu Bjarkar Þórðardóttur, doktors í lýðheilsuvísindum í gær. 

Erindið var á vegum Stígamóta en þar fjallaði Edda Björk um áhrif áfalla á heilsufar, sér í lagi tengsl þungbærrar lífsreynslu í æsku og heilsufars á fullorðinsárum. 

Hún segir að manneskja sem verður fyrir endurteknu ofbeldi sé í miklu meiri áhættu þegar kemur að áfallastreituröskun. Börn sem verða fyrir endurteknu ofbeldi bregðast oft ólíkt við, strákar eru líklegri til að lenda í slagsmálum og leggja aðra í einelti en stelpur snúa frekar hegðun inn á við og skaða sig sjálfar. 

Áföll hafa einnig áhrif á líkamlega heilsu fólks. Það hreyfir sig lítið og er oftar í yfirþyngd og glímir við sykursýki. Það er tvöfalt líklegra til að fá hjarta- og æðasjúkdóma enda oft ákveðin áhættuhegðun þar á bak við, því áföll leiða oft til þess að fólk reykir meira og er líklegra til að eiga við vímuefnavanda að stríða.

Edda Björk Þórðardóttir doktor í lýðheilsuvísindum hélt hjá Stígamótum í …
Edda Björk Þórðardóttir doktor í lýðheilsuvísindum hélt hjá Stígamótum í dag fyrirlestur um áföll í æsku og heilsufar á fullorðinsárum. Ljósmynd Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Að sögn Eddu skýrist það oft af neikvæðum bjargráðum sem fólk grípur til þess að takast á við neikvæðar tilfinningar vegna áfallastreitu. En fái fólk rétta meðferð við áfallastreituröskun eru miklar líkur á að það dragi úr fylgikvillum, svo sem kvíða, þunglyndi og vímuefnaneyslu. 

Edda segir að því miður sé það þannig að þeir sem verða fyrir ofbeldi í æsku eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi á fullorðinsárum og um leið að beita aðra ofbeldi. Ástæðan er sú að viðkomandi þekkir ekki aðra leið til að tjá tilfinningar og hefur ekki upplifað hvað einkenni gott og um leið heilbrigt samband á heimili. 

Edda Björk kom inn á mikilvægi þess að leyfa röddum barna að heyrast og vísaði í fyrirlestur Finna á ráðstefnu nýverið sem sjálfur upplifði ofbeldi í æsku og starfar nú með börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi.

Að búa inn a heimili þar sem er ofbeldi er flókið því þegar foreldrið, sem er sá sem þú átt að treysta og á að annast þig, beitir þigofbeldi eða vanrækslu getur haft alvarlegar afleiðingar. Barnið lærir að þetta sé rétta leiðin til að vinna úr reiði og fá sínu fram — að beita ofbeldi. Læra ekki að tjá tilfinningar með orðum bara hnefanum. Telja að þetta sé eðlilegt því þau þekkja ekki annað.

Læra að takast á við tilfinningar á eðlilegan hátt

Annað sem er algengt hjá þeim sem verða fyrir áföllum í æsku er sjálfskaði og brýnt að kenna börnum tilfinningastjórnun og takast á við tilfinningar á eðlilegan hátt. Því hafa verður í huga að mörg þeirra alast upp við að ákveðnar tilfinningar eru ekki leyfilegar á heimilinu.

Þau gera sér heldur ekki grein fyrir hvað ólíkar tilfinningar eru og hvernig á að bregðast við. Til að mynda að hræðsla sé ekki eðlilegt ástand heldur eitthvað sem verður að bregðast við. Það er ekki eðlilegt að vera alltaf hræddur. Að kenna tilfinningastjórnun og læra að þekkja eigin tilfinningar. Hvernig líður mér þegar ég er sorgmæddur? Hvað er hægt að gera til að líða betur? Að nota jákvætt sjálfstal í stað þess að tala sig niður, segir Edda.

Alvarlegar afleiðingar tilfinningalegrar vanrækslu

Eitt af því sem Edda kom inn á er tilfinningaleg vanræksla og alvarlegar afleiðingar hennar. Þegar þörfum barns er ekki mætt, það fær engin viðbrögð við tilfinningum sínum og lærir því ekki að bregðast við. Hún segir að það eigi alls ekki að hvetja börn til að bæla tilfinningar heldur aðstoða það við að vinna úr þeim á uppbyggilegan hátt.

Að rjúfa þögnina og fá fræðslu um hvað ofbeldi er og mismunandi tegundir ofbeldis er eitt af því sem ungi maðurinn nefndi í fyrirlestrinum að sögn Eddu. Að  spyrja börn hvort þau hafa orðið fyrir ofbeldi. Ekki bara hlusta á þau heldur að það sem þau segja sé heyrt. Þá eru þau að meina að þegar þau greina frá ofbeldi eða erfiðleikum og þá sé eitthvað gert ekki bara hunsað. 

Líkt og fleiri sem fjalla um áföll kom Edda inn á mikilvægi þess að kenna þrautseigju og að þegar við upplifum mikla streitu og álag að læra hvernig við getum náð jafnvægi aftur. Þetta sé hegðun og hugsun sem allir geti lært. Félagslegur stuðningur skiptir máli og þá er það ekki fjöldi vina heldur gæði vináttunnar og stuðningsins. 

Mikilvægur þáttur sem ýtir undir þrautseigju er að fólk hafi góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og hún sé helst ókeypis. Með því að niðurgreiða sálfræðiþjónustu er hægt að koma í veg fyrir marga aðra kvilla því þeir sem glíma við áfallastreituröskun eru líklegir til þess að vera þegar inni í heilbrigðiskerfinu vegna annarra kvilla.

Ef unnið er á rót vandans er hægt að koma í veg fyrir svo marga aðra kvilla sem hrjá fólk, að því er fram kom í erindi Eddu Bjarkar í gær en hún er ein rannsakenda í áfallasögu kvenna, vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands.

Unnur A. Valdimarsdóttir prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Unnur A. Valdimarsdóttir prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Golli

Tæplega þriðjungur þróar með sér geðröskun

Unnur Valdimarsdóttir faraldsfræðingur‚ prófessor við læknadeild Háskóla Íslands‚ gestaprófessor við deild læknisfræðilegrar faraldsfræði og líftölfræði‚ Karolinska Institutet og faraldsfræðideild Harvard TH Chan School of Public Health, veltir fyrir sér í grein í Læknablaðinu hvort í sjónmáli séu nýjar áskoranir og landvinningar að bættri lýðheilsu?

Sterk rök eru fyrir því að ein mikilvægasta áskorun 21. aldar um bætt lífsgæði og jafnframt lífslengd manna felist í aukinni þekkingu á heilsufarslegum afleiðingum langvinnrar streitu, áfalla og áfallatengdum röskunum ásamt forvörnum og meðferð á því sviði.

„Tæplega þriðjungur manna mun þróa með sér geðröskun af einhverju tagi einhvern tímann á lífsleiðinni en nýgengið eykst verulega í kjölfar áfalla og þungbærrar lífsreynslu á borð við ofbeldi, náttúruhamfarir, tekju- eða atvinnumissi, greiningu lífshættulegra sjúkdóma innan fjölskyldu og ástvinamissi. Þessir atburðir eru algengir í okkar samfélagi – til dæmis má gera ráð fyrir því að þriðjungur kvenna verði fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og flest okkar upplifa alvarleg veikindi og/eða ástvinamissi einhvern tímann á lífsleiðinni. Til viðbótar við aukna hættu á geðröskunum í kjölfar áfalla hafa rannsóknir á síðustu árum rennt styrkum stoðum undir tengsl áfalla og áfallatengdra raskana við þróun líkamlegra sjúkdóma,“ segir í grein Unnar.

Áhugi vísindamanna á þætti áfalla og streitu í þróun líkamlegra sjúkdóma er ekki nýr af nálinni en fyrstu rannsóknir á þessu viðfangsefni voru flestar smáar í sniðum og oft með verulegum aðferðafræðilegum annmörkum. Þó komu fram vísbendingar um tengsl streitu við þróun kvefpesta sem og áhrif samfélagslegra áfalla, til dæmis náttúruhamfara, á dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Upp úr aldamótum hafa einnig bæst við sterkar vísbendingar úr dýramódelum og klínískum rannsóknum á mönnum um sál-lífeðlisfræðilega ferla streitu um undirstúku-heiladinguls- nýrnahettu-öxulinn og sympatíska taugakerfið og neikvæð áhrif þeirra á hjarta-, æða- og ónæmiskerfi.

„Eftir nær 20 ára vísindastarf á þessu sviði hlaut rannsóknarhópur minn fyrir nokkru veglega styrki frá Evrópska rannsóknarráðinu og Rannsóknasjóði Íslands sem gefa starfi okkar verulega innspýtingu. Hluti rannsóknanna er unninn hér á Íslandi, meðal annars rannsóknin Áfallasaga kvenna í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, en hluti er unninn í Svíþjóð.

Markmið rannsóknanna er að varpa ljósi á breytileika í heilsufarsþróun í kjölfar áfalla. Fyrstu niðurstöður úr sænska hluta verkefnis okkar hafa birst á síðastliðnu ári í þremur vísindagreinum í tveimur af fremstu alþjóðlegu vísindatímaritunum í læknisfræði.

Í þessum rannsóknum fylgdum við eftir á bilinu 106-145.000 einstaklingum með áfalla- og streitutengdar raskanir, þar á meðal áfallastreituröskun, áfallastreituviðbrögð, aðlögunarröskun og önnur streitutengd viðbrögð, og bárum sjúkdómsáhættu þeirra saman við alsystkini þeirra og óskylda einstaklinga (kyn- og aldursparað) án slíkra raskana.

Í rannsóknarsniði og tölfræðilegri úrvinnslu lögðum við okkur fram um að taka tillit til félags- og hagfræðilegrar stöðu, sögu um fyrri sjúkdóma (geðrænna og líkamlegra) og annarra blöndunarþátta. Niðurstöður sýna ótvírætt að fólk með áðurnefndar áfallatengdar raskanir er í um 30% aukinni áhættu á fjölmörgum sjálfsofnæmissjúkdómum,30-60% aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og um 50% aukinni áhættu á ýmsum lífshættulegum sýkingum á borð við heilahimnubólgu, hjartaþelsbólgu og blóðsýkingum.

Yngri einstaklingar með áfallatengdar raskanir voru í meiri áhættu á ofangreindum sjúkdómum sem og einstaklingar með svæsnari áfallatengdar raskanir. Á hinn bóginn virtist áhætta á þessum illvígu sjúkdómum vera minni meðal fólks sem tók SSRI-lyf fyrsta árið eftir greiningu áfallatengdu röskunarinnar, sem gefur ákveðna vísbendingu um gagnsemi slíkra íhlutana.

Starfi okkar er hvergi nærri lokið en í deiglunni eru meðal annars rannsóknir á áhrifum slíkra raskana á þróun taugasjúkdóma og krabbameina, og erfðarannsóknir á breytileika heilsufars í kjölfar áfalla.

Þessi nýja þekking á brýnt erindi við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk með skjólstæðinga og aðstandendur þeirra sem eru að ganga í gegnum mjög þungbæra lífsreynslu. Hér getur fræðsla, aukið eftirlit, skimun og, eftir atvikum, tilvísun í geðheilbrigðisþjónustu skipt máli til að minnka líkur á frekari heilsubresti hjá þessum viðkvæmu hópum,“ segir í grein Unnar.

 

 

 

 

mbl.is