„Við getum verið mjög stolt af okkur“

Kórónuveiran Covid-19 | 14. júlí 2021

„Við getum verið mjög stolt af okkur“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fékk sinn seinni skammt af bóluefni AstraZenca á síðasta stóra bólusetningardeginum í Laugardalshöll í dag og er því fullbólusett. Hún segir framgang bólusetninga hér á landi ævintýri líkan og að Íslendingar megi vera stoltir af sér. 

„Við getum verið mjög stolt af okkur“

Kórónuveiran Covid-19 | 14. júlí 2021

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra fékk sinn seinni skammt af AstraZeneca í …
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra fékk sinn seinni skammt af AstraZeneca í dag og er því orðin fullbólusett. mbl.is/Árni Sæberg

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fékk sinn seinni skammt af bóluefni AstraZenca á síðasta stóra bólusetningardeginum í Laugardalshöll í dag og er því fullbólusett. Hún segir framgang bólusetninga hér á landi ævintýri líkan og að Íslendingar megi vera stoltir af sér. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fékk sinn seinni skammt af bóluefni AstraZenca á síðasta stóra bólusetningardeginum í Laugardalshöll í dag og er því fullbólusett. Hún segir framgang bólusetninga hér á landi ævintýri líkan og að Íslendingar megi vera stoltir af sér. 

„Ég held að engum hafi órað fyrir því hversu hratt vísindasamfélaginu tókst að búa til bóluefni gegn Covid-19 yfir höfuð og síðan hversu vel hefur gengið bæði að afla þessara bóluefna fyrir okkur hér og að að skipuleggja bólusetningarnar,“ segir Svandís. „Við getum verið mjög stolt af okkur sjálfum og þeim gangi sem hefur verið í bólusetningum. Samfélagið hefur verið mjög til í þetta. Það er mikill vilji í íslensku samfélagi. Svo hefur starfsfólkið á gólfinu unnið þrekvirki þannig mér finnst þetta vera svolítið þeirra dagur í dag.“

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um fyrirkomulag bólusetninga eftir sumarfrí að sögn Svandísar. 

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. Við gerum það í tæka tíð og núna held ég að það sé bara komið að langþráðu sumarfríi fyrir fólkið sem hefur staðið hér í verkunum mánuði á enda og hefur unnið þetta þrekvirki.“

Restin af bóluefnum fer til þróunarríkja

Aðspurð segir Svandís þá bóluefnaskammta sem eftir standa verða senda til þróunarríkja. Hvenær það verður gert er enn óljóst.

„Það hefur verið tekin ákvörðun um það og það verður allt gert í samræmi við þær áætlanir sem hafa verið gerðar. Önnur bóluefni sem út af standa verða send, samkvæmt tilteknum ákvörðunum, til þeirra þjóða sem mest þurfa á því að halda. Þannig að við erum með áform um þetta sem verða kynnt í fjölmiðlum á næstu dögum.“

Nærri 90% íbúa hér á landi hafa nú verið bólusettir …
Nærri 90% íbúa hér á landi hafa nú verið bólusettir gegn Covid-19. mbl.is/Árni Sæberg

Uppi hefur verið í umræðunni að halda eftir hluta bóluefnaskammta hér á landi ef útlit er fyrir að þurfi að bólusetja þá sem fengu Pfizer í þriðja sinn og ef farið verður í það að bólusetja börn. Spurð hvort það sé siðferðilega rétt að halda eftir bóluefni hér sem mögulega er meiri þörf á annarsstaðar segir heilbrigðisráðherra það vera matsatriði.

„Við þurfum auðvitað bara að vega og meta þetta hverju sinni. Sum samfélög í kringum okkur hafa byrjað að bólusetja börn og það er auðvitað eitthvað sem er til skoðunar hér. Það er komið markaðsleyfi fyrir Pfizer fyrir börn á aldrinum 12-15 ára og þriðji skammturinn kann að vera eitthvað sem þörf er á,“ segir hún. „Á sama tíma er framleiðslugeta bóluefnaframleiðenda að aukast og við auðvitað væntum þess að ná þeim árangri að þjóðir heims verði bólusettar. Við munum leggja okkar af mörkum til þess að hjálpa til með það.“

Segir mikilvægt að fólk gæti áfram varúðar 

Fimm manns greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær og voru þrír þeirra fullbólusettir. Tölurnar komi ekki á óvart og minni okkur á að enn þurfi að gæta varúðar þrátt fyrir að stór hluti þjóðarinnar sé nú fullbólusettur, að sögn Svandísar.

„Samkvæmt því sem sóttvarnarlæknir segir þá er þetta í meginatriðum í samræmi við það sem við hefðum mátt búast við. Það er að segja að við myndum sjá eitt og eitt smit og mögulega einhver hópsmit en að minni líkur séu á því að það komi nýjar bylgjur vegna þess hve útbreidd bólusetning er orðin. Það er samt sem áður þannig að veiran er ennþá á kreiki og á meðan að svo er þurfum við að hafa varann á,“ segir hún.

En hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera í sumarfríinu?

„Ég ætla að njóta Íslands. Ég er reyndar á leiðinni norður í Eyjafjörð núna á eftir og hlakka mikið til. Við hjá Heilbrigðisráðuneytinu sofnum samt aldrei og það verður alltaf tilefni til að fylgjast með,“ segir Svandís. „Þetta með Covid er eins og að vera mjög vel yfir í hálfleik, maður getur ekkert hætt þar. Við þurfum áfram að gæta vel að okkar viðkvæmasta fólki þar sem veiran er greinilega ennþá á kreiki úti í samfélaginu. Við kunnum þetta alveg. Spritta hendur, passa upp á fjarlægð, passa upp á viðkvæmasta fólkið okkar og þá mun þetta ganga vel.“

mbl.is