Vinna við að láta drauma fólks rætast

Brúðkaup | 18. maí 2023

Vinna við að láta drauma fólks rætast

Birna Hrönn Björnsdóttir og Sigga Pálsdóttir starfa við að láta drauma rætast en þær sjá um að skipuleggja brúðkaup hjá Pink Iceland. Þær segja engar hugmyndir of stórar en eftirminnilegustu brúðkaupin eru ekki endilega þau sem kosta mest heldur þau sem breyta lífi fólks.

Vinna við að láta drauma fólks rætast

Brúðkaup | 18. maí 2023

Birna Hrönn með brúðgumum á Þingvöllum að lokinni athöfn.
Birna Hrönn með brúðgumum á Þingvöllum að lokinni athöfn. Ljósmynd/Kristín María

Birna Hrönn Björnsdóttir og Sigga Pálsdóttir starfa við að láta drauma rætast en þær sjá um að skipuleggja brúðkaup hjá Pink Iceland. Þær segja engar hugmyndir of stórar en eftirminnilegustu brúðkaupin eru ekki endilega þau sem kosta mest heldur þau sem breyta lífi fólks.

Birna Hrönn Björnsdóttir og Sigga Pálsdóttir starfa við að láta drauma rætast en þær sjá um að skipuleggja brúðkaup hjá Pink Iceland. Þær segja engar hugmyndir of stórar en eftirminnilegustu brúðkaupin eru ekki endilega þau sem kosta mest heldur þau sem breyta lífi fólks.

Er eitthvað sérstaklega í tísku núna þegar kemur að brúðkaupum?

„Áfangastaðabrúðkaupin og sveitabrúðkaupin eru að koma sterk inn og við finnum til dæmis fyrir mikilli ánægju með að Sveitasetrið Brú hafi loks opnað dyr sínar þar sem ein flottasta veisluhlaða landsins er. Það er ákveðin stemning sem myndast þegar allur hópurinn er kominn út fyrir höfuðborgarsvæðið og safnast saman á svona fallegum stað. Þar er t.d. hægt að hugsa alveg út fyrir kassann og hafa athöfnina sjálfa fyrir utan Hlöðuna úti á engi undir berum himni, jafnvel skála og hafa forréttina úti. Svo er frábært plan B að stilla upp fyrir athöfn í hlöðunni því þar er fallegt svið og svo er brúðkaupsdinnerinn inni og á meðan gestir borða er hægt að endurskipuleggja salinn fyrir hljómsveitina og breyta úr rómans yfir í diskó. Það er alltaf gaman að fara með gesti í smá upplifunarferðalag, hvort sem það er að ferðast aðeins út fyrir borgina eða landsteinana,“ segja þær Birna og Sigga.

Þið fylgist vel með því sem er að gerast í brúðkaupsheiminum. Vill fólk alls staðar það sama eða er eitthvað sérstakt sem fólk kýs sem giftir sig á Íslandi?

„Svokölluð „destination weddings“ eða eins og er sagt á íslensku, áfangastaðabrúðkaup virðist vera eitthvað sem er jafn heillandi fyrir alla, hvaðan sem fólk kemur. Síðasta áratuginn höfum við hjá Pink Iceland orðið vitni að því hversu mikið svona ferðalög gera fyrir brúðkaupshópa, tengingin milli gestahópsins verður svo sterk og allt öðruvísi en að mæta saman í sal þar sem allir setjast við sitt borð í nokkra klukkutíma og dansa svo á sama dansgólfi. Í svona ferðalögum tökum við utan um hópinn og skipuleggjum ferðir og ævintýri dagana í kring og þá ertu með fjölskyldur og vini brúðarparsins sem eru að kynnast heilu dagana, tylla sér saman í rútunni og skoða svo fallega fossa og borða góðan mat. Íslendingar eru farnir að sýna þessu mikinn áhuga og við erum mjög spennt fyrir því að skipuleggja brúðkaup fyrir Íslendinga erlendis. Í gegnum alþjóðlegar brúðkaupsráðstefnur höfum við kynnst frábærum fólki í bransanum og erum með æðisleg sambönd á Ítalíu, Spáni og Möltu sérstaklega.“

Veisla á Sveitasetrinu Brú.
Veisla á Sveitasetrinu Brú. Ljósmynd/Shari og Mike

Klakaskurðmeistari kom til landsins

Hvað veitir ykkur gleði í starfinu?

„Fyrst og fremst er það þegar við erum þátttakendur í brúðkaupsdeginum sjálfum, þá fáum við að upplifa allt sem er búið að skipuleggja síðasta árið, sjá hvernig brúðhjónin og gestirnir bregðast við og njóta dagsins og þess sem við höfum skapað. Á skrifstofunni okkar er sjö fermetra veggur sem er dekkaður af þakkarkortum og bréfum frá brúðhjónum og gestum. Það er líka alltaf gaman að hljóta viðurkenningu á sínu starfi á alþjóðlegum vettvangi en nú á dögunum fóru eigendur Pink Iceland á virta brúðkaupsráðstefnu, RSVP, og var fyrirtækið tilnefnt sem „Favourite Wedding Planner in Europe“ og í sömu viku lentum við á topp 10 lista hjá Inventiva yfir bestu brúðkaupsskipuleggjendur í Evrópu 2023.“

Þakkarkortaveggur á skrifstofu Pink Iceland.
Þakkarkortaveggur á skrifstofu Pink Iceland. Ljósmynd/Kristín María

Hvað gerir ykkur að góðum brúðkaupsskipuleggjendum?

„Mikilvægustu eiginleikarnir sem við hjá Pink Iceland búum yfir eru skipulagshæfileikar, tilfinningagreind og vera með bein í nefinu. Svo er almenn regla hérna hjá okkur að við sýnum gæsku og vinnum bara með góðu fólki sem deilir okkar gildum. Að plana brúðkaup með pari er langtímaskuldbinding hjá báðum aðilum og því mikilvægt að okkur semji vel og komið sé fram við alla af virðingu.

Er einhver hugmynd of stór eða of flókin fyrir ykkur?

„Stutta svarið er nei. Mottóið hjá Pink Iceland síðastliðin ár eftir Covid hefur verið „meira vesen“. Við erum opin fyrir öllum þeim hugmyndum sem pörin okkar koma með og leyfum okkur að dreyma stórt og kanna alla möguleika sem eru í boði, já og ef þeir eru ekki í boði athugum við líka hvort við getum ekki bara búið þá til. Í einum viðburði sem við skipulögðum kom til landsins klakaskurðmeistari sem skar andlit gestanna í ís og kom það fólki alveg í opna skjöldu og vakti mikla kátínu. Það hafa verið mörg skemmtileg þemu í brúðkaupunum hjá okkur eins og hobbita, Star Wars og Game of Thrones. Þá er ýmislegt gert til að skapa stemningu í kringum þemað, s.s búningar fyrir gesti, heimsóttir tökustaðir og fundnir staðir fyrir veisluna sem henta þemanu, til dæmis brúðkaupsveisla í Hjörleifshöfða sem er oft kallaður Yoda cave. Það er mikið vesen að koma þangað borðum, stólum, skreytingum og þriggja rétta kvöldmat, tónlistarfólki, bar og barþjónum en það er ótrúlega gaman. Svo þegar fólk er að koma hingað bara parið og stinga af stóra hvíta brúðkaupið heima þá förum við oft í ennþá meiri ævintýri eins og að fljúga með brúðhjónin, athafnastjóra, ljósmyndara og vídeóteymi í þyrlu upp á jökul þar sem athöfnin fer fram. Ætli það svakalegasta sem við höfum gert sem kemur að náttúruöflunum sé ekki þegar 12 manna teymi labbaði með allar græjur fyrir brúðguma sem giftu sig við eldgosið í Fagradalsfjalli. Við löbbuðum í snjóstormi með jakkafötin, blómin, hlífðar- og öryggisbúnað, skiptiklefa, kampavínið og kökuna og giftum þá fyrir framan gjósandi gíg, það var brúðkaup sem fór út um allan heim og við fórum í viðtal hjá ótal sjónvarpsþáttum vegna þess ævintýris.“

Sigga Páls á fleygiferð með brúðarvönd á leið í athöfn.
Sigga Páls á fleygiferð með brúðarvönd á leið í athöfn. Ljósmynd/Kristín María

Ást þeirra var ólögleg

Hvað hafið þið skipulagt mörg brúðkaup og stendur eitthvað upp úr í starfinu?

„Í ár er komið að þeim merka áfanga að við munum plana þúsundasta brúðkaup Pink Iceland. Fyrirtækið okkar var stofnað árið 2011 og núna erum við 12 sem störfum hjá fyrirtækinu. Auðvitað stendur upp úr öll þessi gleði sem við höfum skapað og orðsporið sem við höfum búið til og komið Íslandi sannarlega fyrir á kortinu sem ákjósanlegum áfangastað til að gifta sig.

Þau pör sem standa upp úr og lifa sterkast í minningunni eru samkynja pörin okkar þar sem okkar þjónusta hefur gert fólki kleift að lifa betra lífi, við nefnum oft dæmið um rússnesku stelpurnar. Ást þeirra ólögleg og í raun hættuleg í þeirra heimalandi og hjónaband ekki möguleiki. Önnur þeirra var komin með atvinnu í Bandaríkjunum og vegna þess að við aðstoðuðum þær að gifta sig á Íslandi voru þær með plagg í höndunum sem veitti eiginkonunni tækifæri til að ferðast með og setjast að í Bandaríkjunum, við fylgjumst enn þá með þeim í dag og þær eru að blómstra.“

Brúðkaup í íslenskri náttúru.
Brúðkaup í íslenskri náttúru. Ljósmynd/Shari og Mike

Ef þið ættuð að gefa eitt gott ráð fyrir brúðkaupsundirbúninginn, hvað væri það?

„Verið trú því sem ykkur langar. Það er alltaf gaman að skoða tískustrauma og hvað er nýtt og spennandi en mikilvægast er að halda brúðkaup og veislu þar sem þið njótið ykkar og endurspeglar ykkur hvort sem það er í garðinum heima eða á vínekru á Ítalíu, það eru engar reglur og allt hægt,“ segja þær Birna og Sigga að lokum.

mbl.is