VR segir SA reyna að kúga launafólk

Kjaraviðræður | 14. mars 2024

VR segir SA reyna að kúga launafólk

Gert er ráð fyrir því að laun hækki að lágmarki árlega um 23.750 krónur næstu fjögur árin í samningi sem VR gerði við Samtök atvinnulífsins í nótt.

VR segir SA reyna að kúga launafólk

Kjaraviðræður | 14. mars 2024

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir því að laun hækki að lágmarki árlega um 23.750 krónur næstu fjögur árin í samningi sem VR gerði við Samtök atvinnulífsins í nótt.

Gert er ráð fyrir því að laun hækki að lágmarki árlega um 23.750 krónur næstu fjögur árin í samningi sem VR gerði við Samtök atvinnulífsins í nótt.

Í yfirlýsingu sem VR sendir frá sér segir að SA hafi reynt að kúga launafólk með því að efna til atkvæðagreiðslu um verkbann. Þá kemur einnig fram að VR sé alfarið á móti því að aðgerðir stjórnvalda verði fjármagnaðar með niðurskurði eða skattahækkunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR. 

Fordæma „offors“ SA

Samninganefnd telur niðurstöðu samningsins vera ásættanlega miðað við þann ramma sem var búið að sníða í samningum við önnur stéttarfélög og landssambönd. Þá kemur fram í tilkynningunni að „áfangasigrar“ hafi unnist í átt að 30 daga orlofsrétti, vinnustaðaskírteini fyrir verslanir sem auðvelda eftirlit með mögulegum réttindabrotum og jákvæðar breytingar í starfsmenntamálum.

Launaliðurinn sé að mestu sambærilegur samningum sem á undan hafa komið og að gert sé ráð fyrir 23.750 króna hækkun að lágmarki á ári hverju og hækkunum á taxtalaun og prósentuhækkanir fyrir efri millitekjuhópa. Aðgerðir stjórnvalda muni einnig geta bætt hag launafólks. 

„Samninganefnd fordæmir það offors sem Samtök atvinnulífsins sýndu af sér gagnvart fámennum hópi láglaunafólks við farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair í Keflavík. Fremur en sitja að samningaborðinu með fulltrúum þessa hóps og viðræðunefnd VR og leita lausna, ákvað SA að efna til atkvæðagreiðslu um verkbann gegn tugum þúsunda félagsfólks VR. Eftir það settust samtökin aldrei niður með VR og trúnaðarmanni starfsfólks Icelandair heldur fólu ríkissáttasemjara að ganga á milli hópa,“ segir í tilkynningunnni.

Hafna hugmyndum um niðurskurð eða skattahækkanir

Samninganefndin segir að nú sé ábyrgðin á verðstöðugleika og verðbólgu alfarið á herðum atvinnurekenda og stjórnvalda. Á þeim liggi fyrir skylda að halda verðlagi niðri og að koma í veg fyrir hækkandi verðbólgu.

„Samninganefnd hafnar alfarið hugmyndum um að fjármagna aðgerðir tengdar kjarasamningum með niðurskurði á opinberri þjónustu, aukinni gjaldtöku eða almennum skattahækkunum. Vísar samninganefnd í því sambandi til ítarlegra tillagna ASÍ um fjármögnun aðgerða, sem jafnframt myndu stuðla að auknum jöfnuði.“

Verkalýðshreyfingin þurfi að rísa upp sameinuð

Í tilkynningunni segir að í innanhússmiðlunartillögu ríkissáttasemjara hafi falist áfangasigrar fyrir starfsfólk, en eftir sitji „þessi forkastanlega aðgerð að setja á þeirra herðar ábyrgð á mögulegu verkbanni gegn tugum þúsunda félagsmanna VR“.

„Það er áríðandi að íslensk verkalýðshreyfing rísi upp sameinuð gegn tilraunum SA til að kúga launafólk með þessum hætti og vega að verkfallsrétti þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Undirritaðir kjarasamningar ganga nú til atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks í VR. Félagsfólk VR er hvatt til að kynna sér samninginn, mæta til félagsfundar sem haldinn verður mánudaginn 18. mars næskomandi og taka afstöðu í atkvæðagreiðslunni.

mbl.is