Fullur kraftur settur í borgarlínuna

Alþingi | 10. apríl 2024

Fullur kraftur settur í borgarlínuna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, segir að tækifæri felist í komu Svandísar Svavarsdóttur í innviðaráðuneytið fyrir vinstrimenn og umhverfisverndarsinna.

Fullur kraftur settur í borgarlínuna

Alþingi | 10. apríl 2024

Guðmundur sagði á Alþingi í dag að Vinstri grænir hefðu …
Guðmundur sagði á Alþingi í dag að Vinstri grænir hefðu afl og snerpu til að leysa flókin mál í góðri samstöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, segir að tækifæri felist í komu Svandísar Svavarsdóttur í innviðaráðuneytið fyrir vinstrimenn og umhverfisverndarsinna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, segir að tækifæri felist í komu Svandísar Svavarsdóttur í innviðaráðuneytið fyrir vinstrimenn og umhverfisverndarsinna.

„Í fyrsta lagi þýðir þetta að húsnæðismál eru nú undir stjórn okkar og það skapar tækifæri til að efla félagslegar áherslur með það að markmiði að tryggja lágtekjuhópum þak yfir höfuðið á mannsæmandi verði,“ sagði Guðmundur á Alþingi fyrr í dag.

Í húsnæðismálum kvaðst hann horfa meðal annars til húsnæðismála fatlaðs fólks og sagði að þar þyrfti á að grettistaki að halda í samvinnu við sveitarfélögin.

Vill klára uppfærslu samgöngusáttmálans

Hann sagði að ríkisstjórnin myndi leggja áherslu á að náttúruverndarsjónarmið yrðu ávallt höfð að leiðarljósi við sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda og faglegir ferlar virtir. Sagði hann rammaáætlun vera leiðarljós ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Í samgöngumálum sagði hann að fullur kraftur yrði settur í borgarlínuna.

„Þá förum við nú einnig með samgöngumál og þar munum við auðvitað horfa til orkuskipta í þágu samgangna, klára uppfærslu samgöngusáttmálans og setja fullan kraft í borgarlínuna. Þá skapast tækifæri til að standa frekari vörð um náttúruna í gegnum skipulagsmál sem hýst eru í innviðaráðuneytinu þó vissulega megi gera ferla skilvirkari,“ sagði Guðmundur.

Heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins lykilatriði

Í ræðu sinni sagði Guðmundur að heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins væri lykilatriði. Með breytingunum væri verið að hverfa frá ógagnsæju og flóknu kerfi yfir í einfaldara, sanngjarnara og framsæknara kerfi, að hans sögn.

Verði frumvarpið að lögum verður sérstaklega hægt að bæta kjör þeirra örorkulífeyrisþega sem einungis fá greiðslur frá ríkinu, og þeirra sem eru með lágar tekjur umfram þær sem koma frá Tryggingastofnun.

„Með öðrum orðum, hagur þeirra sem minnst hafa eykst. Réttlátar umbætur í örorkulífeyriskerfinu munu verða stærsta skref í seinni tíð til að draga úr fátækt á meðal örorkulífeyrisþega og ég vona svo sannarlega að við sjáum þær verða að veruleika hér í vor,“ sagði Guðmundur. 

Klára þurfi frumvarp um mannréttindastofnun

Að lokum gerði hann málefni hinsegin fólks að umtalsefni. Rakti hann það að Alþingi samþykkti frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, um kynrænt sjálfræði árið 2019 og sagði Guðmundur það hafa verið stórt skref í réttindabaráttu hinsegin fólks.

„En líkt og alþjóð veit hefur átt sér bakslag í viðhorfum til hinsegin fólks á undanförnum misserum, bæði hérlendis og erlendis. Og við það verður ekki unað og stjórnvöld og almenningur verða að stíga inn með krafti. Við stjórnmálamenn þurfum að draga línu í sandinn og leiða með góðu fordæmi,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði að í því samhengi þá væri mikilvægt að klára frumvarp um stofnun mannréttindastofnunar sem liggur fyrir þinginu.

„Vinstri græn hafa afl, úthald, vilja og pólitíska snerpu til að leysa flóknustu mál í góðri samstöðu. Það sínum við aftur núna, að það skiptir máli fyrir þjóðina í veigamiklum ákvörðunum. Nú á seinni hluta kjörtímabilsins klárum við þau mikilvægu mál sem við hófum. Hér eftir sem hingað til verður Vinstrihreyfingin - grænt framboð hreyfiafl mikilvægra breytinga í þágu umhverfis og náttúru, kynjasjónarmiða, félagslegra gilda og friðar með þátttöku sinni í ríkisstjórn. Breytinga í þágu almennings,“ sagði Guðmundur.

mbl.is