Vilja að dagskrá þingfundarins verði breytt

Alþingi | 7. apríl 2024

Vilja að dagskrá þingfundarins verði breytt

Þingflokkur Pírata hefur gert athugasemd við að á dagskrá þingsins á morgun séu stefnumarkandi frumvörp stjórnarflokkanna. Að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, formanns þingflokks Pírata, skal starfsstjórnin, sem er nú tekin við af ríkisstjórninni, ekki taka ákvarðanir um svo mikilvæg mál.  

Vilja að dagskrá þingfundarins verði breytt

Alþingi | 7. apríl 2024

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkur Pírata hefur gert athugasemd við að á dagskrá þingsins á morgun séu stefnumarkandi frumvörp stjórnarflokkanna. Að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, formanns þingflokks Pírata, skal starfsstjórnin, sem er nú tekin við af ríkisstjórninni, ekki taka ákvarðanir um svo mikilvæg mál.  

Þingflokkur Pírata hefur gert athugasemd við að á dagskrá þingsins á morgun séu stefnumarkandi frumvörp stjórnarflokkanna. Að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, formanns þingflokks Pírata, skal starfsstjórnin, sem er nú tekin við af ríkisstjórninni, ekki taka ákvarðanir um svo mikilvæg mál.  

„Staðan, eins og hún er núna, er að tekin er við starfsstjórn sem að er með forsetaframbjóðanda sem forsætisráðherra. Þessi starfsstjórn ætlar að mæla fyrir 13 eða 14 stjórnarmálum á morgun sem að við höfum gert athugasemd við, þar sem að við teljum það ekki samrýmast hlutverki starfsstjórnar að vera með stefnumarkandi mál á dagskrá þingsins,“ segir Þórhildur og bendir á að það sé í samræmi við góðar og gildar stjórnskipunarreglur. 

Ekkert stórt né umdeilt

Ólaf­ur Þ. Harðar­son stjórn­mála­fræðipró­fess­or sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að meginreglan væri að starfsstjórn geri ekki neitt stórt eða um­deilt.

Þórhildur Sunna bendir á formenn stjórnarflokkanna viti þetta vel. 

Vilja Katrínu í óundirbúnum fyrirspurnartíma

Er mbl.is ræddi við Þórhildi Sunnu rétt fyrir klukkan 19 hafði Birgir Ármannsson, forseti þingsins, ekki tekið undir athugasemdir Pírata.

Þingfundurinn hefst klukkan 15 á morgun og eru nú 16 mál á dagskrá, nánast öll varða lagafrumvörp ráðherra. 

Þórhildur Sunna gerir ráð fyrir að þetta verði rætt á vettvangi þingflokksformannanna við forseta þingsins á morgun og svo í þingsal ef að Birgir víkur ekki frá dagskránni. 

Þá hafa Píratar óskað eftir því að Katrín komi í óundirbúinn fyrirspurnartíma þingfundarins til þess að sitja fyrir svörum um stöðu mála. 

„Klístra einhverju saman“

Hvað telur þú að muni gerast hjá þessari ríkisstjórn? Verður hún starfhæf áfram?

„Þessi ríkisstjórn er náttúrulega ekki búin að vera starfhæf í lengri tíma. Eins og ég hef áður sagt er þetta þriðja stjórnarkreppan á hálfu ári sem við erum að upplifa með þessa fráfarandi ríkisstjórn.

Líkurnar á því að þau nái að klístra einhverju saman sem hangir eitthvað áfram held ég að séu alveg ágætar en ég tel að það verði ekkert sérstaklega starfhæf ríkisstjórn eftir sem áður.“

Engin fjarmálaáætlun

Þórhildur Sunna nefnir að ekki hafi verið lögð fram fjármálaáætlun og muni það því frestast án efa enn frekar. Birgir sagði í samtali við Morgunblaðið á föstudag að von væri á áætluninni um miðja viku.

Hún bendir á að það liggi ekki fyrir hvernig eigi að fjármagna kjarasamninga sem voru gerðir við verkalýðshreyfinguna. Þá séu kjarasamningar opinberra samstarfmanna í lausu lofti. 

„Auðvitað viljum við bara geta haldið áfram að vinna á þingi. Á meðan að hlutirnir eru í svona mikilli óvissu, þá snýst allt í kringum þetta fólk sem getur ekki ákveðið hvort að það vilji halda áfram að vinna saman á sama hátt og það hefur gert hingað til, nema bara mínus einn forsætisráðherra.“

Vandræðalega langur tími

Þórhildur Sunna segist því vona að ákvörðun stjórnarflokkanna skýrist sem fyrst þar sem það sé mikilvægt að það sé starfandi ríkisstjórn í landinu, „burt frá því hvað manni finnst um ríkisstjórnina“. 

Hún segir stöðuna því ekki góða, „af því ég væri til í að pæla í einhverju öðru en hvort að þessi ríkisstjórn stendur eða fellur“.

Þórhildur Sunna ítrekar þó að í hennar augum hafi lengi ekkert gengið hjá stjórninni. Hún segir það í raun vandræðalegt hvað það hafi tekið þau langan tíma að taka ákvörðun. 

„Ég held að það væri gott fyrir stöðugleika í landinu að þau klári þetta sem fyrst, og taki af allan vafa – geta þau haldið þessu áfram eða ekki.“

Kosningar snemma í haust

Spurð hvort að Píratar myndu vilja ganga til þingkosninga segir Þórhildur Sunna að hún myndi vilja fá kosningar snemma í haust. Þangað til yrði starfandi starfsstjórn sem þyrfti ekki endilega að samanstanda af núverandi ráðherrum.

„Mér finnst réttast að kjósa, en ég held ekki að það sé góður tímapunktur akkúrat núna að kjósa,“ segir hún og nefnir komandi forsetakosningar þann 1. júní sem ástæðu. Þá sé aldrei gott að halda kosningar að sumri, sérstaklega vegna áhrifa á kjörsókn. 

Gott spjall við Guðna 

Guðni Th. Jóhannesson forseti greindi frá því í dag að hann hefði rætt við formenn stjórnarandstöðunnar í síma. 

Hvað kom fram á þeim símafundi?

„Við áttum gott samtal um stöðuna og áhorfur,“ segir Þórhildur Sunna og bætir við að Guðni hafi greint henni frá áætlunum fundarins í dag.

Að öðru leyti vill hún ekki tjá sig um þeirra „góða spjall“. 

mbl.is