Hvetur til alþjóðlegra friðarumleitana í Tétsníu

Akhmed Zakajev og Vanessa Redgrave á blaðamannafundi í Lundúnum í …
Akhmed Zakajev og Vanessa Redgrave á blaðamannafundi í Lundúnum í dag. AP

Akhmed Zakajev, sendimaður uppreisnarmanna í rússneska sjálfsstjórnarhéraðinu Tétsníu, hvatti í dag alþjóðasamfélagið til leggja sitt að mörkum til að koma á friði í héraðinu. Varaði hann við því að fleiri harmleikir á borð við gíslatökuna í barnaskólanum í Beslan, gætu orðið ef jafnvægi kæmist ekki á í Tétsníu.

Zakajev var helsti aðstoðarmaður Aslans Maskhadovs, leiðtoga aðskilnaðarsinna í Tétsníu en hann hefur nú fengið pólitískt hæli í Bretlandi. Á blaðamannafundi í dag sakaði Zakajev vestrænar ríkisstjórnir um að gefa Vladímír Pútín, Rússlandsforseta, frjálsar hendur við að berja niður uppreisnina í Tétsníu. Sagði hann að stefna Pútíns hefði leitt til þess að ástandið í lýðveldinu hefði versnað til muna og haldi Pútín uppteknum hætti muni það ýta enn frekar undir uppreisnarhópa á Kákasussvæðinu.

„Ég óttast þá mjög, að fleiri Beslanmál verði óhjákvæmileg," sagi Zakajev og vísaði til þess þegar hópur vopnaðra manna tók mörghundruð börn og foreldra í gíslingu í barnaskóla í Norður-Ossetíu en að minnsta kosti 330 gíslar létu á endanum lífið.

Rússnesk stjórnvöld hafa fullyrt, að Maskhadov sé viðriðinn gíslatökuna en því vísaði Zakajev á bug.

Zakajev sagði að vesturlönd verði að hvetja Rússa til að taka upp friðarviðræður við „hina lýðræðislega kjörnu ríkisstjórn Tétsníu undir eftirliti alþjóðlegra sáttasemjara," og Sameinuðu þjóðirnar væru best fallnar til að stýra slíkum viðræðum.

Stjórnvöld í Moskvu segja að Zakajev tengist hryðjuverkum og vilja fá hann framseldan. Hann segist telja að engin Tétséni, sem sé ósammála Pútín, sé algerlega óhultur, einkum eftir að rússneski varnarmálaráðherrann sagði að Rússar áskildu sér rétt til að grípa til aðgerða gegn uppreisnarmönnum sem dveldu erlendis. Tveir rússneskir leyniþjónustumenn voru dæmdir í Katar fyrr á þessu ári fyrir að myrða annan útlægan leiðtoga Tétséna, sem þar dvaldi, en rússnesk stjórnvöld segjast ekki tengjast því máli.

Breska leikkonan Vanessa Redgrave, sem styður Zakajev, sagði að rætt hefði verið við bresk stjórnvöld um að tryggja öryggi Zakajevs í Lundúnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert