Rússar segjast hafa fellt leiðtoga Tétsena

Aslan Maskhadov.
Aslan Maskhadov. AP

Talsmaður rússneska hersins sagði í dag, að Aslan Maskhadov, leiðtogi tétsjenskra aðskilnaðarsinna, hefði látið lífið. Sagði Ilja Shabalkin, höfuðsmaður, að þetta hefði gerst í sérstakri aðgerð Rússlandshers en vildi ekki upplýsa nánar um málið. Rússneska öryggisþjónustan hafði lagt fé til höfuðs Maskhadovs.

Rússneskar fréttastofur hafa eftir Shabalkin, sem er talsmaður rússneska hersins á Kákasussvæðinu, að átök hafi verið á svæðinu þegar þetta gerðist og Maskhadov hafi falið sig í sprengjubyrgi í umræddu þorpi. Sagði Shabalkin að kennsl hefðu verið borin á lík Maskhadov.

Maskhadov, sem eitt sinn var forseti Tétsníu, hefur lýst ábyrgð á nokkrum árásum á rússneska hermenn á svæðinu og Rússar fullyrða að hann hafi komið að skipulagningu á ýmsum aðgerðum uppreisnarmanna, svo sem gíslatökunni í barnaskóla í Beslan í september sl. og gíslatöku í leikhúsi í Moskvu árið 2002.

Rússar birtu þessa mynd sem þeir segja að sé af …
Rússar birtu þessa mynd sem þeir segja að sé af líki Maskhadovs. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert