Búist við afsögn Raffarins í dag

Dominique de Villepin, Jean-Pierre Raffarin og Jacques Chirac. Myndin var …
Dominique de Villepin, Jean-Pierre Raffarin og Jacques Chirac. Myndin var tekin 2003. AP

Jean-Pierre Raffarin, forsætisráðherra Frakklands, sagði eftir stuttan fund með Jacques Chirac, forseta, í morgun að mál kynnu að „þróast" áfram í dag. Almennt er búist við því að Raffarin segi af sér vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi í gær þar sem rúmlega 55% Frakka höfnuðu nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins.

„Mál munu þróast í dag eða á morgun," sagði Raffarin þegar hann kom aftur til skrifstofu sinnar í dag eftir fundinn með Chirac.

Raffarin, sem er 56 ára, tók við embætti árið 2002 eftir að Chirac var endurkjörinn forseti. Ríkisstjórn hans er hins vegar mjög óvinsæl meðal Frakka og í gærkvöldi gaf Chirac til kynna að stokkað yrði upp í ráðherraembættum.

Almennt er búist við að Dominique de Villepin, innanríkisráðherra, verði nýr forsætisráðherra en einnig er talið að Nicolas Sarkozy, formaður franska stjórnarflokksins, komi til greina í embættið. Heimildarmenn segja að Sarkozy muni hitta Chirac að máli í dag.

mbl.is