Lundúnabúar beðnir um að vera kyrrir þar sem þeir eru

Lögreglumaður og lögregluhundur við Warren lestarstöðina.
Lögreglumaður og lögregluhundur við Warren lestarstöðina. AP

Yfirmaður Lundúnalögreglunnar, Ian Blair, hefur beðið Lundúnabúa að vera kyrrir fyrir þar sem þeir eru og fara ekki um borgina eftir röð „atvika“ í þremur lestarstöðvum og einum strætisvagni í fyrir stundu. Hann sagði greinilega um „alvarleg atvik“ að ræða. Tony Blair forsætisráðherra hefur aflýst fyrirhuguðum fundum sínum í dag vegna atburðanna og mun ásamt Jack Straw, utanríkisráðherra, eiga fund með Ian Blair og yfirmönnum bresku leyniþjónustunnar vegna málsins.

Þremur lestarleiðum hefur verið lokað en hinar ganga eftir áætlun.

Sérfræðingar hafa kannað hvort efnavopn af einhverju tagi hafi sprungið en lögregla segir, að engin merki um slíkt hafi fundist í Oval járnbrautarstöðinni.

Sprengingar urðu í þremur lestum og strætisvagni í borginni í dag en fyrstu tilkynningar bárust til neyðarlínu um klukkan 11:30 að breskum tíma. Talið er að hvellhettur á að minnsta kosti þremur sprengjum, hugsanlega gervisprengjum, hafi sprungið en sprengingarnar voru ekki öflugar. Fréttir hafa borist af því að einn maður hafi særst á Warren Street neðanjarðarbrautarstöðinni enn er ekki vitað um önnur slys á fólki. Þá hafa borist fréttir af því að maður hafi sést hlaupa á brott frá stöðinni við Warren Street í átt að sjúkrahúsi skammt frá. Lögreglumenn sáust fara inn í sjúkrahúsið skömmu síðar. Talið er hugsanlegt að sá maður sé sá sami, og sást blóðugur halda á bakpoka á brautarstöðinni. Sjónarvottur sagði við Sky sjónvarpsstöðina, að bakpoki, sem farþegi í neðanjarðarlest hélt á, hefði sprungið í höndum hans.

Réttar tvær vikur eru í dag frá því sprengjuárás var gerð á samgöngukerfið í Lundúnum. Sprengjurnar sem sprungu þá voru mjög öflugar og létu 56 manns lífið og um 700 særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert