Áfram heldur óöldin í Sýrlandi

Að minnsta kosti 15 óbreyttir sýrlenskir borgarar voru teknir af lífi án dóms og laga af her landsins í borginni Homs í nótt. Íranar, einn helsti bandamaður Sýrlendinga í alþjóðasamfélaginu, segja að sýrlensk stjórnvöld þurfi meiri tíma til að koma á friði í landinu.

Mannréttindasamtök greindu frá því að a.m.k. 15 óbreyttir borgarar hafi verið teknir af lífi í Homs eftir að herinn hafði leitað þeirra í Shammas hverfinu og fjarlægt fólkið af heimilum sínum. Meðal þeirra sem voru líflátnir var múslímaprestur, sex barna faðir.

Íranar segja að stjórn Bashar al-Assads, forseta Sýrlands, þurfi lengra ráðrúm til að  verða við kröfum alþjóðasamfélagsins og Sameinuðu þjóðanna. Ofbeldið í landinu hefur nú varað í 15 mánuði. Íranar hafa lýst yfir stuðningi við stjórn Assads.

„Önnur lönd, sér í lagi nágrannalöndin, ættu að hjálpa Sýrlendingum við að koma á friðaráætlun SÞ. Að öðrum kosti gæti skapast alvarlegt vandamál í þessum heimshluta,“ sagði Ali Akbar Salehi, utanríkisráðherra Írans, í viðtali við ISNA fréttastofuna.

Salehi tiltók engin einstök lönd, en stjórnmálaskýrendur telja að þarna hafi hann átt við Katar og Sádi-Arabíu.

Hann bætti því við að ríkisstjórn Sýrlands hefði stigið mörg skref í lýðræðisátt, m.a. með stjórnarskrárbreytingum og kosningunum sem haldnar voru 7. maí síðastliðinn.

Þrátt fyrir að vopnahléi hafi verið komið á í landinu fyrir mánuði, er lítið lát á átökum og talið er að meira en 900 manns hafi látið lífið í átökum og mótmælum í landinu síðan þá. Alls hafa meira en 12.000 manns látíst í átökunum í Sýrlandi frá því að mótmælin hófust þar í mars í fyrra.

Rúmlega 200 friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna eru nú í landinu, en til stóð að þeir yrðu 300 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert