Sífellt fleiri lesa blöð á netinu

The New York Times er með fleiri netáskrifendur en áskrifendur …
The New York Times er með fleiri netáskrifendur en áskrifendur að prentútgáfu. AFP

Lesendum bandarískra dagblaða á netinu hefur fjölgað undanfarna sex mánuði, en þeir eru ekki jafnmargir og þeir sem hafa sagt upp áskriftum sínum að prentútgáfunum á sama tíma. The New York Times er með fleiri netáskrifendur en áskrifendur að prentútgáfu.

Alls dróst útbreiðsla dagblaða, bæði prentaðra og netútgáfna, saman um 0,2% alla daga nema sunnudaga, en útbreiðsla sunnudagsblaða jókst á þessu tímabili um 0,6%.

Þetta sýna nýjar tölur frá ABC, stofnun sem fylgist með útbreiðslu fjölmiðla. Samkvæmt þeim eru netútgáfur dagblaða 15,3% af öllum dagblaðalestri, í september í fyrra var sambærileg tala 9,8%.

The Wall Street Journal mest lesið

Mest lesna dagblaðið í Bandaríkjunum er The Wall Street Journal, sem er prentað í 1,5 milljón eintökum og er með 794.000 áskrifendur að netútgáfu. USA Today er það dagblað sem er mest lesið í prentútgáfu, en það er prentað í 1,6 milljónum eintaka á degi hverjum og er með 86.000 netáskrifendur.

The New York Times er í þriðja sæti með 896.000 netáskrifendur og 717.000 áskrifendur að prentútgáfu. Það er eina stóra dagblaðið þar sem netáskrifendur eru fleiri en áskrifendur að prentútgáfu.

Vinsælasta sunnudagsblaðið er gefið út af The New York Times, því er dreift í 2,1 milljón eintaka og þar af eru rúmlega 850.000 netáskrifendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina