Viðræðurnar gætu tekið nokkur ár

Wikipedia

Viðræður á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um fríverslun munu taka langan tíma og jafnvel nokkur ár. Þetta sagði Nicole Bricq, viðskiptaráðherra Frakklands, á blaðamannafundi í gær samkvæmt frétt Reuters en stefnt er að því að viðræðurnar hefjist í júní í sumar og ljúki í lok næsta árs. Tillaga að samningsumboði Evrópusambandsins var kynnt fyrr í þessum mánuði en er háð samþykki allra ríkja sambandsins.

„Það kemur ekki til greina að vinna með samningsumboð sem samið er með hraði. Við viljum ná samningi en við eigum ekki að flýta okkur um of að hefja viðræður,“ sagði Bricq ennfremur. Ráðherrann lagði ennfremur áherslu á að ekki væri ásættanlegt að opnað yrði á fríverslun tengda menningarmálum en lögum samkvæmt hafa frönsk stjórnvöld heimildir til þess að setja hömlur á erlent útvarps- og sjónvarpsefni og niðurgreiða innlenda kvikmyndaframleiðslu.

Fram kemur í fréttinni að Frakkar hafi einnig fyrirvara við fríverslunarviðræðurnar við Bandaríkin þegar kemur að landbúnaðarmálum en þeir vilja ekki að Evrópusambandið opni markaði sína fyrir erfðabreytt matvæli og kjötvörur af dýrum sem fengið hafi hormónagjafir. Þá segir að mikilvægt sé talið að Frakkar styðji viðræðurnar en hliðstæðar viðræður hafi runnið út í sandinn á 10. áratug síðustu aldar vegna andstöðu Frakka.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert