Útlit fyrir pólitíska pattstöðu

Boyko Borisov, er formaður GERB-flokksins, sem er íhaldssamur flokkur.
Boyko Borisov, er formaður GERB-flokksins, sem er íhaldssamur flokkur. AFP

GERB-flokkurinn, sem er flokkur Boyko Borisov, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, hlaut flest atkvæði í þingkosningunum í Búlgaríu samkvæmt útgönguspá. Flokkurinn náði ekki meirihluta og er því útlit fyrir pólitíska pattstöðu og frekari mótmæli þar í landi.

Borisov sagði af sér embætti fyrir þremur mánuðum í kjölfar mestu mótmæla í Búlgaríu í áraraðir. Útgönguspár benda til þess að GERB hafi hlotið á bilinu 30,3-33% atkvæða.

Sósíalistaflokkurinn BSP kemur næstur á eftir með á bilinu 25,3 -27,1% atkvæða. Þá MRF, sem er tyrkneskur minnihlutaflokkur, sem hlaut á bilinu 6,5-11,5%. Ataka, flokkur hægri öfgamanna, hlaut á bilinu 7,3-8,5% samkvæmt spám.

Ekki liggur fyrir hvað gerist næst en ekki liggur fyrir hvernig þessir flokkar geti komið sér saman um myndun ríkisstjórnar.

Ekki er búist við að formleg úrslit verði kynnt fyrr en á morgun og að það taki nokkra daga að greina frá úthlutun þingsæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert