Bandarískt greiðslufall ógn við lýðræðið

Það er stál í stál þar sem Barack Obama og …
Það er stál í stál þar sem Barack Obama og Johyn Boehner mætast. AFP

Sjálfsskapað greiðslufall ríkissjóðs Bandaríkjanna væri skelfileg staða sem gæti skaðað verulega lýðræði, trúverðugleika og alþjóðlega stöðu Bandaríkjanna í áraraðir. Þannig hljómuðu varnaðarorð talsmanna Hvíta hússins á fundi með blaðamönnum í morgun.

„Forsetinn hefur gert það alveg ljóst að því tímabili sem greiðslufalli sé hótað verði að ljúka,“ sagði Gene Sperling, framkvæmdastjóri efnahagsskrifstofu forsetaembættisins í Hvíta húsinu, á morgunverðarfundi með fjölmiðlamönnum í morgun.

„Ef við samþykkjum að þetta sé eðlilegt ferli mun það hafa mjög skaðvænleg áhrif á lýðræðið, skaðvænleg áhrif á efnahaginn og skaða traust og trúverðugleika Bandaríkjanna,“ sagði Sperling og bætti því við að greiðslufall Bandaríkjanna væri „óhugsandi“.

Greiðslufall Bandaríkjanna yrði sögulegt nýmæli

Það er stál í stál þar sem Barack Obama Bandaríkjaforseti og repúblikaninn John Boehner, forseti fulltrúadeildar þingsins, mætast.

Boehner hefur lýst því yfir að repúblikanar, sem eru í meirihluta í fulltrúadeild, muni ekki samþykkja hækkun skuldaþaksins nema Obama geri ákveðnar pólitískar tilslakanir. „Ég er búinn að segja forsetanum að við munum ekki samþykkja hækkun að óbreyttu. Það eru ekki atkvæði fyrir því í fulltrúadeildinni. Og forsetinn stefnir okkur í greiðslufall með því að neita að tala við okkur.“

Obama segir á móti að það standi ekki til boða að semja um hvort hækka eigi skuldaþak ríkissjóðs eða ekki. Hann segir að þinginu beri skylda til að greiða skuldir sínar. Ekki er langur tími til stefnu því innan 10 daga, 17. október, missir þingið lántökurétt sinn verði hækkun skuldaþaksins ekki samþykkt. Þar með gæti komið til fyrsta greiðslufalls Bandaríkjanna í sögunni.

Grafalvarleg staða í Bandaríkjunum

Mótmælandi við þinghúsið í Washington.
Mótmælandi við þinghúsið í Washington. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert