Pútín mætti of seint á fundinn

Vladimir Pútín mætti tveimur klukkustundum of seint á fund sinn með Almazbek Atambayev, forseta Kirgisistans, í Pétursborg í Rússlandi í morgun. Líkt og áður hefur komið fram hafði hann ekki sést á opinberum vettvangi í tíu daga.

Pútín virtist ekki hafa áhyggjur af meintum veikindum, andláti eða öðru sem átti að hafa hent hann síðustu daga og sagði tilveruna leiðinlegri án slúðursins.

Atambayev sagði forsetann hafa keyrt hann um umhverfi Strelnya-hallarinnar áður en fundurinn hófst. Pútín hætti við nokkra fundi síðustu daga og gaf þar með sögusögnum byr undir báða vængi.

Frétt mbl.is: Pútín mætti fölur á fundinn

Talsmaður Pútín, Dmitry Peskov, virðist vera orðinn þreyttur á umræðunni. Hann benti á bíltúr forsetans með Atambayev sem stóð yfir í fimmtán mínútur. Sagði hann kaldæðinni röddu að nú ættu allir að hafa komið auga á „lamaða“ forsetann sem er nýkominn heim frá Sviss þar sem hann tók á móti barni og vísaði þar með í umræður um fjarveru forsetans.

Sagði Peskov einnig að leiðtogarnir hefðu ákveðið að hittast í Pétursborg þar sem dóttir Atambayev er við nám í borginni. „Við viljum ekki lengur tala um þetta. Allt er gott,“ sagði Peskov að lokum.

Þessi mynd var tekin af Pútín í morgun.
Þessi mynd var tekin af Pútín í morgun. AFP
Vladimir Pútin og Almazbek Atambayev á fundinum í morgun.
Vladimir Pútin og Almazbek Atambayev á fundinum í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert