Ryan kjörinn forseti þingsins

Nýkjörinn forseti fulltrúadeildarinnar Paul Ryan (t.v.) ásamt fráfarandi forsetanum John …
Nýkjörinn forseti fulltrúadeildarinnar Paul Ryan (t.v.) ásamt fráfarandi forsetanum John Boehner (t.h.). AFP

Fyrrverandi varaforsetaefni repúblikana, Paul Ryan, var kjörinn forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag. Þar með var bundinn endi á leiðtogakrísu í deildinni sem skapaðist eftir að fráfarandi þingforsetinn John Boehner tilkynnti um brotthvarf sitt af þingi.

Ryan hlaut 236 atkvæði en alls sitja 435 þingmenn í fulltrúadeildinni sem repúblikanar hafa meirihluta í. Var kjöri hans tekið með dynjandi lófataki. Embættið er eitt það valdamesta í bandarískum stjórnmálum en Ryan er nú annar í röðinni að forsetastólnum á eftir varaforsetanum ef sitjandi forseti hverfur frá störfum af einhverjum ástæðum.

Flokkadrættir innan Repúblikanaflokksins urðu til þess að Boehner tilkynnti í síðasta mánuði að hann hygðist stíga til hliðar í lok þessa mánaðar. Hann mátti sitja undir óvæginni gagnrýni frá íhaldssamasta armi flokksins á þeim fjórum árum sem hann sat á forsetastólnum.

Hópur þingmanna flokksins stóð þannig gegn hvers kyns málamiðlunum í þinginu við demókrata eða Barack Obama, forseta. Einstrengingsháttur þeirra varð meðal annars til þess að hluti starfsemi ríkisins stöðvaðist um tíma fyrir tveimur árum og litlu munaði að ríkissjóður lenti í greiðsluþroti árið 2011.

Samið í laumi um fjárlög næstu ára

Enginn var hins vegar tilbúinn að taka við embættinu við þessar aðstæður en hart var lagt að Ryan, sem var varaforsetaefni Mitt Romney í forsetakosningunum árið 2012, að taka það að sér. Það var ekki fyrr en hann hafði verið fullvissaður um að flokkurinn stæði heill að baki sér að Ryan lét til leiðast.

Áður hafði Boehner rutt stórri hindrun úr vegi eftirmanns síns með því að semja í laumi við demókrata um fjárlög næstu tveggja ára. Með samkomulaginu verða útgjöld ríkisins aukin um 80 milljarða dollara, líkurnar á því að opinberar stofnanir lokist minnka og skuldaþak ríkisins hækkar. Þingið þarf að samþykkja að hækka skuldaþakið fyrir 3. nóvember, annars er hætta á gjaldþroti ríkissjóðs.

Fulltrúadeildin samþykkti samkomulagið með meirihluta demókrata og hluta þingflokks repúblikana. Fáist það samþykkt öldungadeildinni, eins og fastlega er gert ráð fyrir, ætti leið Ryan í embætti þingforseta að vera færri þyrnum stráð á næstu misserum.

„Með þessu rennur upp nýr dagur í fulltrúadeildinni. Við munum ekki hafa fulltrúadeild með sömu ásýnd og síðustu ár. Við ætlum að færast fram á við, við ætlum að sameinast,“ sagði Ryan þegar hann tók við embættinu.

Fyrri frétt mbl.is: Forðast forsetann eins og pestina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert