Helstu staðreyndir um árásirnar

Kona grætur fyrir utan veitingastað þar sem árás var framin …
Kona grætur fyrir utan veitingastað þar sem árás var framin í gær. AFP

Að minnsta kosti 128 eru látnir, mörg hundruð eru særðir, þar af 80 lífshættulega. Ráðist var á sex skotmörk í París í gærkvöldi, þar á meðal íþróttaleikvang, tónleikahús og veitingastaði.

Hér að neðan er atburðarásin rakin í stórum dráttum:

Föstudagur, 13. nóvember. 

Kl. 9.20 að staðartíma, 20.20 að íslenskum tíma, hefst skothríð og sprengjuárásir samtímis á nokkrum stöðum í París. 

Þrjár sprengjur sprungu við Stade de France íþróttaleikvanginn þar sem fram fór vináttulandsleikur milli Frakka og Þjóðverja í fótbolta. Um 80 þúsund áhorfendur voru á leiknum, þeirra á meðal Francois Hollande Frakklandsforseti. Einn lést auk þriggja sjálfsvígsárásarmanna.

Í 10. hverfi Parísar létust tólf á verönd veitingastaðarins Le Petit Cambodge. 

Í rue de Charonne, í 11. hverfi, létust átján í skothríð sem varði í 2-3 mínútur.

Í Bataclan-tónleikahúsinu, þar sem bandaríska rokksveitin Eagles of Death Metal var að halda tónleika, réðust nokkrir vopnaðir menn inn og hófu skothríð á áhorfendur. Kölluðu þeir „Allahu Akbar“ (ísl. Guð er mestur), og tóku nokkra menn í gíslingu.

Í 11. hverfi í nágrenni við Place de la Republique, létust fimm á verönd veitingastaðarins La Casa Nostra. Skammt frá lést svo einn í sjálfsmorðssprengjuárás, auk árásarmannsins sjálfs. 

Kl. 22.30: Francois Hollande Frakklandsforseti fluttur af íþróttaleikvanginum og í innanríkisráðuneytið.

Fyrstu fréttir hermdu að átján væru látnir. 

Sérstakur saksóknari vegna hryðjuverka tekur við umsjón og rannsókn. 

Lögreglan lokar nokkrum lestarstöðvum. 

Kl. 23.43: Talið að í það minnsta 35 séu látnir. 

Kl. 23.50: Barack Obama forseti Bandaríkjanna fordæmir árásirnar og segja þær árás á allt mannkyn. 

Spítalar í París settir á neyðarstig. 

Kl. 00.01: Hollande forseti lýsir yfir neyðarástandi. 

Kl. 00.30: Lögreglan ræðst til inngöngu í Bataclan-tónleikahúsinu. Aðgerðin tók þrjátíu mínútur. Að minnsta kosti 82 létust í þeirri árás. Fjórir árásarmenn féllu. Þrír létust eftir að kveikja á sprengjuvestum sem þeir voru í og sjá fjórði var skotinn til bana af lögreglu.

Hollande heimsækir Bataclan-tónleikahúsið og heitir því að berjast af hörku gegn hryðjuverkamönnum. 

1.500 hermenn til viðbótar eru fluttir til Parísar. 

Landamæravarsla er hert í landinu. 

Ljóst að í það minnsta 120 voru látnir.

Laugardagur, 14. nóvember:

Kl. 04.30: Lögreglan segir að átta árásarmenn hefðu fallið, sjö þeirra sprengdu sig í loft upp. 

 Hollande og Obama ræða saman í síma og ákveða að styrkja samstarf sitt í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Skólar, markaðir, söfn og vinsælir ferðamannastaðir í París eru lokaðir. Öllum íþróttaviðburðum aflýst. 

Nokkrar borgir Evrópu herða öryggiseftirlit sitt. 

Kl. 10.50: Hollande segir árásina stríð sem hryðjuverkamenn beri ábyrgð á. Nefndi hann sérstaklega Ríki íslams. Hann lýsir yfir þriggja daga þjóðarsorg. 

Skömmu síðar lýsa hryðjuverkasamtökin Ríki íslam yfir ábyrgð á árásunum. Þau hóta frekari árásum og segja skotmörkin hafa verið vandlega valin. 

Fólk faðmast í París í dag.
Fólk faðmast í París í dag. AFP
Gríðarleg sorg ríkir í Frakklandi.
Gríðarleg sorg ríkir í Frakklandi.
Fólk faðmast í París í dag.
Fólk faðmast í París í dag. AFP
mbl.is