Hótar „guðlegri hefnd“

40 manns voru handteknir í Íran í gærkvöldi og í nótt eftir að eldur var lagður að sendiráði og ræðismannaskrifstofu Sádi-Arabíu í Teheran, höfuðborg Írans í gærkvöldi. Fjöldi fólks kom þar saman og mótmælti aftöku sjítaklerksins Nimr al-Nimrs sem tekinn var af lífi ásamt 46 öðrum föngum í Sádi-Arabíu í gærmorgunAyatollah Ali Khamenei æðsti klerkur og æðsti leiðtogi Írans segir að Sádi-Araba bíði „guðleg hefnd“ vegna aftökunnar.

Nimr var einn af forsprökkum mótmæla gegn ríkisstjórn Sádi-Arabíu árið 2011 og var handtekinn í kjölfarið. Nimr gagnrýndi meðferð stjórnvalda á sjíta-múslímum, en landinu er stjórnað af súnní-múslímum.

Pólitísk mistök

„Afleiðingar þessarar óréttlátu blóðsúthellingar munu fljótt koma í ljós,“ sagði Khamenei um aftökuna á fundi trúarleiðtoga Írans í Teheran í morgun. „Þessi fræðimaður hvorki hvatti fólk til vopnaðra átaka né bruggaði launráð. Það eina sem hann gerði var að koma á framfæri gagnrýni trúsystkina sinna.“

Khamenei sagði aftöku Nimrs „pólitísk mistök“ ríkisstjórnar Sádi-Arabíu. „Guð mun ekki fyrirgefa. Þetta mun koma í bakið á stjórnmálamönnunum,“ sagði hann.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu, Mansur al-Turki, segir viðbrögð íranskra ráðamanna óábyrg.

Innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu segir að þeir sem teknir voru af lífi hafi verið sakfelldir fyrir að tileinka sér róttæka hugmyndafræði sem kallast takfir, fyrir að vera í samtökum hryðjuverkamanna og fyrir að hafa skipulagt ýmiskonar glæpaverk.

153 teknir af lífi í fyrra

Allir þeir 47 sem teknir voru af lífi í gærmorgun voru karlmenn. Einn var Egypti og annar frá Afríkuríkinu Tsjad, hinir voru Sádi-Arabar. Sumir voru hálshöggnir, aðrir skotnir. Meðal annarra sem voru teknir af lífi var Fares al-Shuwail sem talinn var vera helsti trúarleiðtogi al-Qaeda í landinu. Aftökum hefur fjölgað í landinu síðan Salman konungur tók við völdum í fyrra. Á síðasta ári voru 153 teknir af lífi í landinu sem næstum því tvöfalt fleiri en árið á undan.

Aftökurnar hafa verið harðlega gagnrýndar af stjórnvöldum og mannréttindasamtökum víða um heim. Evrópusambandið er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt aftökurnar og í yf­ir­lýs­ingu frá Federica Mog­her­ini, sem er æðsti talsmaður ESB í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um, segir að aftökurnar gætu orðið til þess að auka enn á þær trú­ar­bragðadeil­ur sem þegar hafa valdið svo mikl­um skaða í þess­um heims­hluta með al­var­leg­um af­leiðing­um. Þá var aftökunum mótmælt víða, m.a. í Bretlandi og á Indlandi.

Frétt mbl.is: Ráðist á sendiráð Sádi-Arabíu í Teheran

Frétt mbl.is: Munum láta jörðina skjálfa undir fótum ykkar

Frétt mbl.is: 47 fangar teknir af lífi í Sádi-Arabíu

Frá mótmælunum í Íran í gær.
Frá mótmælunum í Íran í gær. AFP PHOTO / ISNA / MOHAMMADREZA NADIMI
Ayatollah Ali Khamenei æðsti klerkur og æðsti leiðtogi Írans.
Ayatollah Ali Khamenei æðsti klerkur og æðsti leiðtogi Írans. AFP PHOTO / ATTA KENARE
Nimr al-Nimr var tekinn af lífi í Sádi-Arabíu í gærmorgun.
Nimr al-Nimr var tekinn af lífi í Sádi-Arabíu í gærmorgun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert