Neita aðild að netleysi Assange

Julian Assange hefst við í sendiráði Ekvador í Lundúnum en …
Julian Assange hefst við í sendiráði Ekvador í Lundúnum en virðist netsambandslaus um þessar mundir. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa neitað ásökunum Wikileaks þess efnis að þau hafi farið þess á leit við yfirvöld í Ekvador að þau neituðu Julian Assange, stofnanda Wikileaks, um aðgengi að internetinu. Assange dvelur í sendiráði Ekvador í Lundúnum.

Wikileaks héldu því fram í gær að Assange hefði verið sviptur internetaðgengi eftir að samtökin birtu ræður sem forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton hélt fyrir fjármálafyrirtækið Goldman Sachs.

Assange hefur dvalið í sendiráðinu frá 2012 en hann er eftirlýstur í Svíþjóð.

Í röð færslna á Twitter héldu samtökin því fram að þau hefðu það eftir mörgum bandarískum heimildum að Ekvador hefði klippt á internetaðgang Assange að beiðni John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

John Kirby, talsmaður utanríkisráðuneytisins, segir hins vegar ekkert hæft í ásökununum.

„Á sama tíma og áhyggjur okkar vegna Wikileaks eru viðvarandi eiga hugmyndir um að Kerry eða utanríkisráðuneytið hafi átt aðkomu að því að loka á Wikileaks ekki við rök að styðjast,“ sagði hann.

Kirby sagði einfaldlega ósatt að Kerry hefði rætt málið við yfirvöld í Ekvador.

Á laugardag birtu Wikileaks þrjár ræður sem Clinton fékk greitt fyrir að flytja fyrir Goldman Sachs eftir að hún lét af störfum sem utanríkisráðherra og áður en hún tilkynnti um framboð til forseta.

Kosningateymi Clinton hefur sakað Wikileaks, og rússnesk stjórnvöld, um að leka ræðunum í viðleitni til að hjálpa andstæðing hennar, Donald Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka