Árásarmaðurinn skotinn til bana

AFP

Anis Amri, 24 ára gamall Túnisi, sem talið er að hafi ekið flutningabifreið inn í mannmergð á jólamarkaði í Berlín á mánudagskvöldið var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó í nótt. Tólf lét­ust í árásinni og tugir særðust, þar af 14 mjög al­var­lega.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Marco Minniti, boðaði fréttamenn á sinn fund klukkan 10:45 að staðartíma, 9:45 að íslenskum tíma í Róm. 

Þar staðfesti Minniti að Amri hafi verið skotinn til bana í Sesto San Giovanni hverfinu í Mílanó í nótt. Fingraför hans svara til fingrafara mannsins sem skotinn var til bana en yfirvöld á Ítalíu eru með fingraför hans frá því hann var í fangelsi á Sikiley 2011-2015.

Samkvæmt fréttum ítalskra fjölmiðla var Amri stöðvaður í bíl sínum um þrjú leytið í nótt en um hefðbundið eftirlit lögreglu var að ræða. Hann dró upp skammbyssu og til skotbardaga kom á milli hans og lögreglu. 

Ráðherrann segir að Amri hafi fyrst skotið á lögreglu sem hafi svarað í sömu mynt. Hafið sé yfir allan vafa að um Amri er að ræða.

Minniti segir að Amri hafi verið rólegur og yfirvegaður þegar hann dró vopnið upp úr bakpoka sínum og hóf skothríð. Einn lögreglumaður særðist er Amri skaut hann í öxlina. Hann er á sjúkrahúsi þar sem hann fer í aðgerð í dag. Hann er ekki í lífshættu.

Amri er með tengsl við Ítalíu en hann kom þangað frá Túnis árið 2011. Fljótlega eftir komuna þangað var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa kveikt í flóttamannamiðstöð. Í Túnis hafði hann verið fundinn sekur um rán í réttarhöldum sem fóru fram að honum fjarstöddum, að sögn breska ríkisútvarpsins. Eftir að hafa lokið afplánun á Ítalíu fór hann til Þýskalands þar sem hann sótti um hæli.

Ítalskir fjölmiðlar segja að hryðjuverkadeild lögreglunnar þar í landi hafi fylgst með honum á sínum tíma þar sem talið var mögulegt að hann tengist íslömskum öfgasamtökum. Ekki var talin stafa mikil hætta af honum.

Anis Amri
Anis Amri AFP

Þýsk yfirvöld voru gagnrýnd í gær eftir að skýrt var frá því að Amri hefði áður sætt rannsókn vegna gruns um að hann væri að undirbúa hryðjuverk.

Að sögn þýskra fjölmiðla hafa spurningar vaknað um ástæður þess að manninum tókst að komast hjá handtöku og brottvísun úr landi þótt hann hefði verið undir eftirliti nokkurra öryggisstofnana í Þýskalandi.

„Yfirvöld voru með hann í sigtinu en samt tókst honum að hverfa,“ sagði í vefútgáfu vikublaðsins Der Spiegel. „Þeir vissu um hann. Samt gerðu þeir ekkert,“ sagði Berlínarblaðið B.Z.

Þýskir saksóknarar sögðu að grunur hefði leikið á því að Amri hygðist fremja innbrot til að verða sér úti um peninga fyrir vopnum, „hugsanlega til að gera árás“. Haft hefði verið leynilegt eftirlit með honum frá mars til september í ár en þeir sem fylgdust með honum komust aðeins að því að hann seldi stundum fíkniefni í almenningsgarði í Berlín og lenti einu sinni í átökum á bar. Ekki komu fram neinar vísbendingar um að hann væri að undirbúa hryðjuverk og eftirlitinu var því hætt, að sögn þýskra embættismanna.

The New York Times hafði í gær eftir bandarískum embættismönnum að Amri hefði lesið sér til á netinu um hvernig hægt væri að búa til sprengjur. Hann hefði haft samband við liðsmenn samtakanna Ríki íslams að minnsta kosti einu sinni á netinu.

Þýskir fjölmiðlar hafa einnig skýrt frá því að Amri hafi umgengist þekkta öfgamenn úr röðum íslamista, meðal annars klerk sem var handtekinn í nóvember og er grunaður um að hafa fengið unga menn til að berjast með liðsmönnum Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak á fyrri helmingi síðasta árs. Der Spiegel segir að hlerað símtal bendi til þess að Amri hafi boðist til að gera sjálfsvígsárás en að vísbendingarnar hafi verið svo óljósar að saksóknarar hafi ekki getað notað þær til að ákæra hann.

Ríki íslams hefur lýst árásinni í Berlín á hendur sér. Hermt er að dvalarleyfi Amris hafi fundist í flutningabílnum sem ekið var á mannmargan jólamarkað í borginni. Dagblaðið Süddeutsche Zeitungsagði í gær að fingraför Amris hefðu einnig fundist á hurð bílsins.

Alls biðu tólf manns bana í árásinni, þeirra á meðal pólskur bílstjóri flutningabílsins. Hann fannst látinn í bílnum, með skot- og stungusár.

Berlínarbúar flykktust á jólamarkaðinn í gær þegar hann var opnaður í fyrsta skipti eftir árásina. Settur var upp steinsteyptur tálmi við markaðinn til að hindra aðra árás.

AFP
Jólamarkaðurinn við Kaiser-Wilhelm-Gedaechtniskirche í Berlín þar sem árásin var gerð.
Jólamarkaðurinn við Kaiser-Wilhelm-Gedaechtniskirche í Berlín þar sem árásin var gerð. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Varstu í bústað, ólykt eftir vetur, viltu eyða
Varstu í bústaðnum, var ólykt / fúkkalykt eftir veturinn, viltu eyða, hér er lau...
STOFUSKÁPUR
TIL SÖLU NÝLEGUR STOFUSKÁPUR ( HVÍTLAKKAÐUR) MEÐ GLERHILLUM. STÆRÐ: B=78, D=41...
Greinakurlari
Glussastýrður greinakurlari fyrir traktor, www.hardskafi.is Sími 896 5486...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...