Sex lykilspurningar um eldsvoðann

Eldurinn barst hratt upp hliðar hússins eins og sést á …
Eldurinn barst hratt upp hliðar hússins eins og sést á myndum sem teknar voru skömmu eftir að hann braust út. AFP

Ótal spurningar hafa vaknað í kjölfar stórbrunans í Grenfell-turninum í London. Sú stærsta er vitanlega hvernig hann kviknaði og gat breiðst út á jafnmiklum ógnarhraða og raun ber vitni.

Yfirvöld hafa staðfest að sautján létust í eldsvoðanum. Talið er að mun fleiri lík eigi eftir að finnast. Ekki er vitað með vissu hversu margir bjuggu í fjölbýlishúsinu en í því voru 120 íbúðir. Íbúafjöldinn er talinn vera á bilinu 400-600 manns. 

Slökkviliðsmenn björguðu 65 á lífi úr húsinu í gær. Tæplega 80 voru fluttir á sjúkrahús og 37 dvelja þar enn. Þar af eru 17 í lífshættu. Töluverður fjöldi þeirra sem komst af sjálfsdáðum út hefur látið vita af sér. Margra er hins vegar enn saknað. Vitað er að á meðan eldurinn umvafði efstu hæðir hússins var þar inni fólk á lífi. Hver örlög þeirra urðu er enn á huldu.

Nágrannar Grenfell-turnsins fylgjast með reyknum leggja frá húsinu í gær.
Nágrannar Grenfell-turnsins fylgjast með reyknum leggja frá húsinu í gær. AFP

Dany Cotton, slökkviliðsstjóri Lundúnaborgar, segist „hreinskilnislega“ ekki hafa hugmynd um hversu margra sé saknað. Hún segir að það væri algjört kraftaverk ef einhver finnst á lífi nú, rúmlega sólarhring eftir að eldsins varð fyrst vart.

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um upptök eldsins, m.a. hefur verið bent á að raflagnir hafi verið bilaðar, gaskerfi hússins hafi nýlega verið lagfærð og ný klæðing sett utan á það. Skýringin á upptökunum gæti þó einnig verið hefðbundnari, s.s. að biluðum ísskáp sé um að kenna, sígarettuglóð eða potti sem gleymdist á eldavél.

Komið hefur fram að lyftur hússins voru virkar eftir að eldurinn kom upp. Þær fluttu m.a. fólk af efri hæðum niður á jarðhæðina á einhverjum tímapunkti. Þá er einnig vitað að fólk henti sér í örvæntingu út úr húsinu og segja sjónarvottar að kona hafi kastað barni sínu, vöfðu inn í teppi, ofan af 9.-10 hæð. Fólk á jörðu niðri hafi gripið það. Þeir segja að barnið hafi lifað af en það hafa yfirvöld ekki staðfest. 

Nú þegar síðustu glæðurnar hafa loks verið slökktar í byggingunni og slökkviliðsmenn eru farnir að ganga íbúð úr íbúð í leit að líkum, þar sem fullvíst þykir að enginn sé á lífi inni í húsinu, hefur mikil reiði blossað upp meðal almennings. Fólk spyr einfaldlega: Hvernig gat þetta gerst?

Fréttavefur BBC hefur tekið saman lista yfir þær sex spurningar sem brenna helst á fólki í kjölfar eldsvoðans mikla.

Greinin heldur áfram fyrir neðan myndskeiðið.

1. Hvernig kviknaði eldurinn?

Slökkviliðið var kallað að Grenfell-turninum kl. 00.54 að staðartíma í fyrrinótt. Unnið var að því tímunum saman að slökkva eldinn.

Talið er að eldurinn hafi kviknað á fjórðu hæð hússins. Enn er ekki vitað hver eldsupptök voru.

Íbúðir í turnbyggingum eru hannaðar með það fyrir augum að komi upp eldur í einni þeirra haldist hann sem lengst innan veggja hennar. Það varð hins vegar alls ekki raunin íGrenfell-turninum.

Turninn var alelda á augabragði og þustu slökkviliðsmenn í tugatali …
Turninn var alelda á augabragði og þustu slökkviliðsmenn í tugatali á vettvang. AFP

2. Hvers vegna breiddist eldurinn svona hratt út?

Af myndskeiðum sem tekin voru á vettvangi stuttu eftir að eldurinn kom upp má sjá að eldurinn breiddist út utan á húsinu. Síðar læsti hann sig í fjölmargar íbúðir og stóð turninn að lokum allur í ljósum logum.

BBC hefur eftir eldvarnarsérfræðingnum Elvin Edwards að ferðalag eldsins um húsið kallist á sérfræðingamáli „skorsteinsáhrifin“. 

Stigar slökkviliðsbíla slökkviliðs Lundúnaborgar ná mest í 32 metra hæð og takmarka þannig hversu hátt upp á húsið var hægt að ná og berjast við eldinn utanfrá. 

Slökkviliðsmenn hættu sér inn í bygginguna til að reyna að bjarga fólki og komust upp á 21. hæð að því best er vitað. Slíkt er „ótrúlegt“ segir fyrrverandi slökkviliðsmaður í samtali við BBC. 

Matt Wrack, formaður sambands slökkviliðsmanna í London, segir augljóst að eldvörnum hafi verið ábótavant í byggingunni.

Á meðan endurbótum á húsinu stóð kom aðgerðahópur sem íbúarnir stofnuðu ábendingum á framfæri við eigendur hússins. Íbúarnir höfðu áhyggjur af eldvörnum og að aðgengi slökkvibíla að húsinu væri t.d. takmarkað. Útgöngum hússins var að sama skapi fækkað á framkvæmdatímanum og fjölmiðlar hafa haft eftir íbúum að aðeins einn útgangur hafi verið mögulegur er eldurinn kom upp í fyrrinótt. Það hefur þó ekki enn verið staðfest.

3. Hefði átt að vera brunavarnakerfi í húsinu, reykskynjarar og vatnsúðarar?

Ekkert úðakerfi var í húsinu sem var byggt árið 1974. Í núgildandi lögum er kveðið á um að allar blokkir sem eru yfir 30 metra háar skuli hafa slíkt kerfi. Ekki er gerð krafa í lögum um að úðakerfum sé komið upp í eldri turnhúsum í Bretlandi. Hins vegar hefur verið mælst til þess að slíkt verði gert.

Grenfell-turninn var klæddur að utan á síðasta ári.
Grenfell-turninn var klæddur að utan á síðasta ári. AFP

Bent hefur verið á að um 4.000 turnbyggingar í landinu séu án vatnsúðakerfa. Sérfræðingar telja að hefði úðakerfi verið í Grenfell-turninum hefði það dregið úr útbreiðsluhraða eldsins, minnkað reykinn og þannig mögulega auðveldað fólki að komast út. „Við vitum að úðakerfi gera gagn,“ segir Paul Fuller hjá sambandi slökkviliða í Bretlandi. Hann bendir þó á að kerfin séu engin allsherjarlausn. 

Íbúar sem komust lífs af segjast ekki hafa heyrt í reykskynjurum í sameign hússins. Sérfræðingar segja að stundum séu eldvarnakerfi þannig hönnuð að reykskynjarar fari aðeins í gang á þeim hæðum þar sem eld eða reyk er að finna. Þau vari þannig ekki íbúa á öðrum hæðum við yfirvofandi hættu.

4. Höfðu framkvæmdir við endurbætur á húsinu árið 2016 áhrif á öryggi þess?

Fyrirtækið Rydon Construction, sem sá um endurbætur á Grenfell-turninum á síðasta ári, segist hafa gert margvíslegar umbætur, m.a. til orkusparnaðar.

Að utan var húsið klætt, skipt var um glugga til að einangra íbúðir betur og breytingar voru einnig gerðar í sameign hússins. 

Eldvarnasérfræðingar hafa þegar bent á að einmitt þessi nýja klæðning gæti verið orsök þess að eldurinn breiddist hratt út utan á húsinu. Klæðningin sem notuð var er úr málmi og einangrunin úr frauði. 

Brunavarnir Bretlands segja að utanhúsklæðningar eigi að vera eldvarðar. Dæmi eru um að klæðningar hafi þó frekar orðið til þess að eldurinn breiðist út. Það gerðist m.a. er 79 hæða íbúðaturn íDubai varð eldi að bráð árið 2015. 

Stigar slökkviliðsbílanna í Lundúnaborg ná í allt að 32 metra …
Stigar slökkviliðsbílanna í Lundúnaborg ná í allt að 32 metra hæð. Grenfell-turninn var mun hærri. AFP

Eigendur hússins sögðu í yfirlýsingu í gær að enn væri ekkert sem staðfesti það að klæðningunni væri um að kenna. Farið hafi verið að öllum stöðlum og reglum við val á henni og uppsetningu, m.a. hvað varðar eldvarnir. Sú setning, þ.e. að klæðningin hefði uppfyllt eldvarnarstaðla, var tekin út úr tilkynningu sem eigendurnir sendu síðar frá sér. Í staðinn var komið almennara orðalag: Byggingin uppfyllti byggingareglugerðir.

Í fréttabréfi sem sent var íbúum hússins eftir að endurbótunum var að mestu lokið í maí á síðasta ári sagði að brunavarnir hafðu verið uppfærðar og bættar.

Borgaryfirvöldum ber að sinna eftirliti með brunavörnum. Bent hefur verið á að síðasta úttekt eftirlitsaðila á eldvörnum hússins hafi verið gefin út í desember árið 2015, áður en endurbótum á húsinu var lokið.

5. Var rétt að ráðleggja íbúum að halda kyrru fyrir í íbúðum sínum?

Íbúum í turnhúsum eins og Grenfell-turni er oftast ráðlagt að halda kyrru fyrir í íbúðum sínum sé eldur eða reykur í öðrum íbúðum en þeirra. 

Sérfræðingar sem BBC ræddi við segir þetta gert til að hemja útbreiðslu reyks og elds og til að auðvelda slökkviliði aðgang í stigahúsunum. Þegar eldsvoði verði geti það tafið slökkvistarf ef stigahúsin eru full af fólki að flýja, þ.e. svo lengi sem fólkið er ekki í bráðri hættu í íbúðum sínum.

Í fyrstu breiddist eldurinn út utan á húsinu. Hann tók …
Í fyrstu breiddist eldurinn út utan á húsinu. Hann tók svo að læsa sig í hverja íbúðina á fætur annarri. AFP

En annað var uppi á teningnum í Grenfell-turninum. Stigagangar fylltust fljótt af þykkum reyk og eldurinn breiddist gríðarlega hratt um allt húsið. Því er talið að fólk hafi orðið innlyksa á efstu hæðunum.

Sjónarvottar segja að nokkrum klukkutímum eftir að eldurinn kviknaði hafi íbúum sem voru inni í húsinu enn verið sagt að halda kyrru fyrir íbúðum sínum og bíða eftir því að vera bjargað af slökkviliðsmönnum. 

6. Hvaða áhrif mun eldsvoðinn í Grenfell-turninum hafa á eftirlit og eldvarnir í öðrum byggingum?

Talsmaður regnhlífarsamtaka íbúa í félagslegum íbúðum Lundúna segir að nú verið þess krafist að allt eldvarnaeftirlit verði endurskoðað og að brunavarnir verði bættar. 

Borgaryfirvöld hafa tekið í sama streng og segja að sérstök athugun verði gerð á eldri húsum sem hafa verið endurbætt að undanförnu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert