Sleppa föngum vegna jólanna

Nicolas Maduro (t.v.), forseti Venesúela, með Raul Castro, forseta Kúbu …
Nicolas Maduro (t.v.), forseti Venesúela, með Raul Castro, forseta Kúbu (t.h.). AFP

Yfirvöld í Venesúela hafa ákveðið að sleppa um 80 föngum sem handteknir voru í mótmælum gegn Nicolas Maduro, forseta landsins og sósíalistastjórn hans. Delcy Rodriguez, sem stýrir nefndinni sem rannsakar mótmælin, sagði jólin vera tíma sátta þegar hún tilkynnti um að föngum yrði sleppt.

Stjórnarandstæðingar og ríkisstjórn landsins hafa undanfarið átt í samningaviðræðum um örlög fanganna en samkvæmt tölum stjórnarandstæðinga sátu 268 pólitískir fangar í fangelsum landsins áður en þessum 80 var sleppt. Ríkisstjórnin vísar því á bug að fangarnir séu pólitískir, heldur hafi þeir gerst sekir um landráð, samsæri eða ofbeldi. Næstu fundir vegna lausnar á óstöðugu ástandi landsins verða 11. og 12. janúar á næsta ári. Fangarnir voru handteknir ýmist í mótmælum árið 2014 og í sumar.

Meðal þeirra sem var sleppt úr haldi var Alfredo Ramos, borgarstjóri Ibarren í norðvesturhluta Venesúela. Hann fagnaði frelsi sínu og sagði í samtali við fréttamenn að tíminn hefði verið erfiður. „Þetta var óréttmæt frelsissvipting, ég framdi engan glæp,“ sagði Ramos en honum hafði áður verið gert að dúsa í fangelsi í 15 mánuði.

Pólitískt og efnahagslegt ástand er mjög óstöðugt í Venesúela. Skortur er á lyfjum og matvælum. Nokkur hundrað þúsund manns hafa flúið landið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert