„Jill var lögð í einelti“

Rose McGowan segir að Harvey Weinstein hafi nauðgað sér árið …
Rose McGowan segir að Harvey Weinstein hafi nauðgað sér árið 1997. AFP

Framleiðandinn og fyrrverandi umboðsmaður leikkonunnar Rose McGowan, Jill Messick, framdi sjálfsmorð en hún lést í Los Angeles á miðvikudaginn. Massick var umboðsmaður McGowan árið 1997 þegar McGowan sakaði Harvey Weinstein um nauðgun.

McGowan hefur greint frá því að umboðsmaður hennar hafi ekki stutt hana í kjölfarið á meintri nauðgun Weinstein en hann neitar allri sök.

Fjölskylda Messick staðfesti að hún hefði framið sjálfsmorð á miðvikudag. Messick hafði glímt við þunglyndi og geðhvarfasýki í mörg ár. Fjölskylda hennar gagnrýndi Weinstein, McGowan og fjölmiðla fyrir að dreifa lygum um hana.

„Jill var lögð í einelti í þessu nýja samfélagi þar sem endalausum upplýsingum er deilt og allir taka yfirlýsingum sem bláköldum staðreyndum. Jill gat illa brugðist við þeim ósönnu upplýsingum sem dreift var um hana á ógnarhraða,“ var meðal þess sem kom fram í yfirlýsingu fjölskyldunnar.

Ættingjar Messick segja enn fremur að McGowan hafi sagt henni frá atvikinu en hafi ekki talað um nauðgun. Messick hafi áttað sig á því að eitthvað óviðeigandi, ef ekki ólöglegt, hefði átt sér stað og sent málið til yfirmanna sinna. Nokkrum mánuðum síðar hóf hún störf hjá fyrirtæki Weinstein.

Fjölskyldan bætti því við að Messick hefði ekki viljað koma fram og verja sig frá „ærumeiðandi yfirlýsingum“ McGowan vegna þess að það gæti grafið undan öðrum konum sem sögðu frá áreitni. 

Weinstein segir að McGowan sé lygari. Í síðasta mánuði vitnaði hann í tölvupóst frá Messick sér til varnar en þar segir að McGowan hafi sagt Messick að hún hafi sjálfviljug farið í heitan pott með Weinstein og séð eftir því síðar. Fjölskylda Messick segir að tölvupósturinn hafi verið skrifaður að beiðni Weinstein áður en allar ásakanirnar gegn honum voru gerðar opinberar.

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert