Eitrið veldur „óbætanlegum“ skaða

Vísindamaðurinn sem tók þátt í að þróa taugaeitrið sem notað var til að eitra fyrir Skripal-feðginunum segir það hannað til þess að valda „óbætanlegum“ skaða. Hann segir að engir aðrir en Rússar geti staðið að baki tilræðinu á Skripal-feðginin í smábænum Salisbury.

Efnavopnasérfræðingurinn rússneski Vil Mirzayanov sagði frá þessu í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina og fleiri fjölmiðla í gær og í dag. Hann býr nú í Bandaríkjunum en starfaði áður fyrir efnavopnastofnun rússnesku leyniþjónustunnar. 

Hann tók þátt í því að búa til samansafn eiturefna sem kölluð eru novichok. Bresk stjórnvöld telja sig hafa fullvissu fyrir því að efni af þeirri tegund hafi verið notuð í tilræðinu gegn feðginunum Yuliu og Sergei Skripal sem fundust meðvitundarlaus á bekk við verslunarmiðstöð í breska smábænum Salisbury í byrjun mars. Þau liggja enn milli heims og helju á sjúkrahúsi. Talið er að eitrinu hafi verið dælt inn um miðstöð bíls þeirra.

Rússneski efnafræðingurinn Vil Mirzayanov tók þátt í að þróa taugaeitrið …
Rússneski efnafræðingurinn Vil Mirzayanov tók þátt í að þróa taugaeitrið sem talið er hafa verið notað í árásinni á Skripal-feðginin. AFP

Mirzayanov segir að aðeins smávægilegt magn af eitrinu sé nóg til að þess að hafa áhrif á fórnarlömbin og að það geti þá tekið mörg ár fyrir einkennin að halda áfram að koma fram. Hins vegar sagði Jenny Harries, yfirmaður heilsuverndarstofnunar Bretlands, að almenningi stafi lítil hætta af eitrinu eftir árásina. Þó hefur þegar komið fram að lögreglumaður sem kom fyrstu á vettvang í Salisbury veiktist og um 500 manns hafa verið beðnir að þvo föt sín og fylgihluti í varúðarskyni.

Vil Mirzayanov er orðinn 83 ára. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 1995 eftir að hafa starfað fyrir rússnesk stjórnvöld í þrjá áratugi. 

Það var hann sem sagði fyrstur manna frá því opinberlega á tíunda áratug síðustu aldar að novichok-eiturefnin væru til og hver áhrif þeirra á fólk gætu verið. 

Fyrst sagði hann frá því í rússneskum fjölmiðlum rétt eftir fall Sovétríkjanna og síðar eða árið 2007 gaf hann út bók um málið þar sem hann m.a. birti efnaformúluna að baki eiturefnunum.

Mirzayanov býr nú í Princeton í New Jersey. Hann segist sannfærður um að Rússar standi að baki árásinni sem hafi verið gerð til að ógna andstæðingum forsetans Vladimírs Pútín.

„Aðeins Rússar“ hafa þróað þessa tegund taugaeiturefna að hans sögn. „Þeir hafa geymt það og þeir eiga það enn og halda því leyndu.“

Rússneski efnafræðingurinn Vil Mirzayanov gaf út bók um taugaeitrið sem …
Rússneski efnafræðingurinn Vil Mirzayanov gaf út bók um taugaeitrið sem hann átti þátt í að þróa í Sovétríkjunum á sínum tíma. Hann segir enga lækningu til við eitrun af völdum efnisins. AFP

Hann sagði að annar möguleiki væri sá að einhver hafi notað formúlurnar sem hann birti í bók sinni til að búa til sambærilegt efnavopn. Hann telur líklegt að Rússar muni reyna að halda slíku fram og reyna að skella skuldinni á sig.

Það tók fimmtán ár að þróa taugaeitrið og á tilraunastigum var það prófað á dýrum. Þetta er hins vegar líklega í fyrsta sinn, að sögn Mirzayanov, sem reynt er að drepa fólk með því.

En hvers vegna er því beitt núna?

Mirzayanov telur að stjórnvöld í Rússlandi vilji hræða andstæðinga Pútíns með þessum hætti. Hann segir að efnið sé notað til að geta sagt: „Sjáðu hvað við gerðum við Skripal, það sama gæti komið fyrir þig.“

Mirzayanov segir að rússneskum stjórnvöldum hafi ekki stafað ógn af Skripal, hann hafi hins vegar verið notaður, með þessum grimmilega hætti, til að sýna fram á hversu Rússar eru megnugir.

Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia.
Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia.

Engin lækning er til við þeim kvalarfullum einkennum sem novichok-efnin valda að sögn Mirzayanov. Taugaeitrið er talið tíu sinnum öflugra en VX sem er annað þekkt eitur sem notað er í efnavopn. Hann segir að hálft gramm af eitrinu sé nóg til að drepa 50 kílóa manneskju.

Komist fólk í snertingu við eitrið verður sjón þess fyrst móðukennd og í kjölfarið fær það krampa og getur ekki lengur andað. „Ég hef séð áhrifin sem þetta hefur á dýr; kanínur og hunda. Þau eru hræðileg.“

Hann segir að ef Skripal-feðginin lifi af þá eigi þau þjáningarfullt líf fyrir höndum.

Taugaeitrið er auðvelt meðhöndla þar sem það samanstendur af tveimur efnum sem eru skaðlaus sitt í hvoru lagi. Það er ekki fyrr en þeim er blandað saman að þau mynda hið banvæna eitur.

Því er hægt að flytja efnin með öruggum hætti. 

Hermenn klæddir eituefnabúningum við rannsókn á vettvangi í smábænum Salisbury.
Hermenn klæddir eituefnabúningum við rannsókn á vettvangi í smábænum Salisbury. AFP

Mirzayanov segir að vonandi verði þessi uppákoma til þess að novichok-efnin verði skráð á bannlista Alþjóðlegu efnavopnastofnunarinnar eins og hann hafi kvatt til í tvo áratugi.

Vinir Mirzayanov segja að hann verði að fara varlega í að tjá sig svo opinskátt um málið. Hann gæti orðið næsta skotmark. „Ég hef lifað lengi. Þeir geta ekki stöðvað mig. Ég mun halda áfram að vinna að því að novichok verði bannað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert