Bannaðir í Svíþjóð fari þeir ekki sjálfir

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Sænskir jafnaðarmenn hafa kynnt nýja stefnu í innflytjendamálum sem miðar að því að draga mjög úr fjölda flóttamanna sem kemur til Svíþjóðar. Er stefnt að því að fjöldi þeirra verði helmingi minni en í dag. Vilja jafnaðarmenn herða verulega reglur í þeim efnum. Til að mynda að þeir sem hafnað hefur verið um hæli fái enga félagslega aðstoð í Svíþjóð og verði bannað að koma aftur til landsins fari þeir ekki af fúsum og frjálsum vilja.

Þingkosningar fara fram í Svíþjóð í september og hefur Jafnaðarmannaflokkurinn ekki gengið vel í skoðanakönnunum. Á sama tíma hefur stjórnmálaflokkurinn Svíþjóðardemókratar, sem talar fyrir harðri innflytjendastefnu, aukið fylgi sitt og er talið að hann gæti verið í lykilstöðu eftir kosningarnar þegar komi að stjórnarmyndun. Jafnaðarmenn fara fyrir núverandi ríkisstjórn Svíþjóðar, sem er minnihlutatsjórn, í samstarfi við Græningja. 

Ráðherra innflytjendamála í Svíþjóð, Helene Fritzon sem situr á sænska þinginu fyrir jafnaðarmenn, sagði á blaðamannafundi þar sem nýja stefnan var kynnt að við eðlilegar aðstæður kæmu 14-15 þúsund hælisleitendur til Svíþjóðar en á síðasta ári hafi þeir verið 27 þúsund. Hún lagði þó áherslu á að hún vildi ekki gefa upp ákveðna tölu varðandi það hvað ætti að að vera markmið stjórnvalda þegar kæmi að fjölda hælisleitenda.

„Já þýðir já og nei þýðir nei“

Meðal annars vilja sænskir jafnaðarmenn að tímabundnar strangari reglur um málefni hælisleitenda sem settar voru árið 2016 verði festar varanlega í sessi þar til Evrópusambandið hafi samþykkt nýjar reglur í þeim efnum. Ennfremur til að mynda að eftirlit með skilríkjum þeirra sem koma til Svíþjóðar verði hert og settar verði skorður við frelsi þeirra sem fengið hafa hæli til þess að velja hvar í landinu þeir setjist að. 

Stefnan gerir sömuleiðis meðal annars ráð fyrir því að þeir sem neitað hafi verið um hæli í Svíþjóð þurfi að bíða í tvöfalt lengri tíma en nú er áður en þeir geti sótt um hæli á nýjan leik og að þeim hælisleitendum sem neita að yfirgefa landið af fúsum og frjálsum vilja eftir að umsókn þeirra hefur verið hafnað verði bannað að koma þangað aftur. 

Haft er eftir Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, í sænskum fjölmiðlum að aðalatriðið væri það að hælisleitendur yfirgæfu landið ef umsókn þeirra væri hafnað. „Grundvallaratriðið verður að vera að já þýðir já og nei þýðir nei. Ef þú átt engan rétt á að vera í Svíþjóð þá geturðu ekki notið sænskrar velferðar. 

Fram kemur í frétt Bloomberg að sænskir jafnaðarmenn færu með þessu í fótspor jafnaðarmanna í Danmörku sem kynnt hafi herta innflytjendastefnu og væru með það til skoðunar að starfa með Danska þjóðarflokknum, sem lengi hefur talað fyrir harðri innflytjendastefnu, að loknum þingkosningum þar í landi á næsta ári. 

mbl.is
Atvinnuhúsnæði til leigu
Atvinnuhúsnæði við Kársnesbraut. 205fm gólfflötur. 120fm milliloft. Lofthæð 7m ...
Nudd - Rafbekkkur 193.000 Tilboð:179.000 út okt
Egat Standard. Nudd Rafbekkur Verð 193.000 Tilboð:179.000 út okt Lyftir 204 kg...
Byggingastjórn - Húsasmíðameistari
Löggiltur byggingarstjóri og húsasmíðameistari Tek að mér: - byggingarstjór...