Ítölsk stjórnvöld saka Frakka um hræsni

629 flótta­menn eru um borð í skip­inu Aquarius sem nú ...
629 flótta­menn eru um borð í skip­inu Aquarius sem nú siglir til Spánar. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur sakað ítölsk stjórnvöld um „vantraust og óábyrga hegðun“ með því að neita björgunarskipi sem strandaði í Miðjarðar­haf­inu um að leggjast að bryggju. Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu segir afstöðu Frakka til málsins hins vegar einkennast af hræsni. Gagnrýndi hann enn fremur þau ríki sem hann sagði alltaf hafa snúið bakinu við Ítölum er komi að málefnum flóttamanna.

629 flótta­menn eru um borð í skip­inu Aquarius, en þeim hafði verið bjargað í sex ólík­um aðgerðum und­an strönd­um Líb­íu. Stjórn­völd á Ítal­íu synjuðu í gær skip­inu um hafn­ar­leyfi. Spænsk stjórnvöld heimiluðu eftir það skipinu að koma í höfn í Valensíu með aðstoð tveggja ítalskra skipa. Sjö óléttar konur eru um borð, ellefu ung börn og 123 einstaklingar undir lögaldri sem eru einir á ferð. Þá eru 15 þeirra sem um borð eru sagðir vera með alvarleg brunasár og nokkrir þjást af ofkælingu.

BBC segir Ítali hafa tekið við rúmlega 640.000 hælisleitendum, sem flestir koma frá Afríku, sl. 5 ár. Hafa ítölsk stjórnvöld sagt að önnur ríki ESB verða að deila byrðinni með þeim, en flestir þeirra hælisleitenda sem lifa af ferðina yfir Miðjarðarhafið enda í yfirfullum flóttamannabúðum á Ítalíu. Meðal þeirra er fjöldi flóttamanna sem flúið hafa ofsóknir og stríð og sem eiga lögum samkvæmt rétt á hæli.

Benjamin Griveaux, talsmaður Frakklandsforseta, sagði forsetann hafa minnt á að „í neyð þá beri því ríki sem skipið er næst að bregðast við“. „Hegðun ítalskra stjórnvalda einkennist af vantrausti og óábyrgni,“ hafði hann eftir Macron. 

Luigi Di Maio, varaforsætisráðherra Ítalíu, gaf lítið fyrir gagnrýni Frakka. „Ég er ánægður með að Frakkar séu búnir að komast að því hvað ábyrgð er. Ef þeir vilja þá munum við hjálpa þeim,“ sagði Di Maio. „Látum þá opna hafnir sínar og við munum senda nokkra til Frakklands.“

Fyrr í dag hafði Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, varið þá ákvörðun sína að leyfa skipinu ekki að leggjast að bryggju. „Það er skylda að bjarga lífum, en það er ekki skylda að breyta Ítalíu í risavaxnar flóttamannabúðir,“ sagði Salvini.

mbl.is

Bloggað um fréttina

íbúð með sérinngangi eða sérbýli óskast.
Ábyrg og snyrtileg fjögurra manna fjölsk. óskar eftir húsnæði í Reykjavik og nág...
Vetrardekk
Til sölu 4stk hálfslitin vetrardekk,205/55 R16... Verð kr 12000.,,Sími 8986048....
Póstkort
Langar þig að fá póstkort sent einhvers staðar úr heiminum? Þá er www.postcrossi...
fágætar bækur til sölu
til lsölu nokkrar fágætar bækur Sneglu-Halli eftir Símon Dalaskáld Guðmundar...