New York ríki höfðar mál gegn Trump

Trump segir „sóðalega demókrata“ gera hvað sem er til að ...
Trump segir „sóðalega demókrata“ gera hvað sem er til að fara í mál við hann. AFP

New York-ríki hefur höfðað mál gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og börnum hans, Ivönku, Eric og Donald Jr., vegna „ítrekaðra ólöglegra ráðstafana“ úr fjölskyldusjóði þeirra í yfir áratug. AFP-fréttastofan greinir frá.

Ásakanirnar snúa að því að Donald J. Trump-góðgerðarsjóðurinn hafi á umfangsmikinn og ólöglegan hátt stutt við kosningabaráttu Trump. Að fjármunir hafi ítrekað verið millifærðir úr sjóðnum bæði í þágu persónulegra hagsmuna Trump og viðskiptalegra. Þannig hafi verið brotið gegn lögum New York-ríkis um sjóði sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni.

New York-ríki krefst þess að greiddar verði 2,8 milljónir dollara í skaðabætur og að sjóðnum verði lokað. Þá er einnig gerð krafa um að Trump fái ekki að sitja í stjórn góðgerðarfélaga í New York næstu tíu árin. Rannsóknin málsins hefur staðið yfir í tæp tvö ár.

Trump var fljótur að tjá sig á Twitter eftir að tilkynnt var um málshöfðunina og sagði hana „fáránlega“. Sagðist forsetinn ekki ætla að leita málamiðlana í þessu máli og sakaði „sóðalega demókrata“ New York-ríkis um að gera hvað sem er til að fara í mál við hann.

mbl.is
Íbúð til leigu á Seltjarnarnesi
Íbúð í einbýlishúsi með sérinngangi. Óskum eftir snyrtilegum, reyklausum og tr...
www.flutningur.is 5753000 sendibilastöð
Stöðin býður upp á allar stærðir sendibíla og veitir trausta og umfram allt góð...
Nudd Nudd Nudd
Relaxing Massage Downtown Reykjavik. S. 6947881, Alina...