Snúa aftur heim til Sýrlands

Sýrlensk fjölskylda brosir við landamærin að heimalandinu þaðan sem hún …
Sýrlensk fjölskylda brosir við landamærin að heimalandinu þaðan sem hún flúði undan stríðsátökunum. AFP

Sýrlenskir flóttamenn, sem dvalið hafa í bænum Arsal í Líbanon skammt frá heimalandinu, eru í hundruðavís að snúa aftur heim. Heimför þeirra er liður í samkomu lagi sem stjórnvöld í Líbanon og Sýrlandi hafa gert. 

Dregið hefur úr átökum á ákveðnum svæðum í Sýrlandi og stjórnvöld í Líbanon hafa þrýst á að flóttafólk sem þau hafa tekið við fái að snúa aftur til svæða þar sem ástandið er talið stöðugt. 

Um 36 þúsund sýrlenskir flóttamenn eru í bænum Arsal samkvæmt tölum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Margir þeirra eru frá þorpum sem eru rétt handan landamæranna. 

Fyrsti hópurinn lagður af stað

Um 400 munu snúa aftur til sinna heimkynna í dag og er það fyrsti hópurinn sem fer aftur heim, að sögn Abbas Ibrahims, yfirmanns öryggismála í Líbanon sem hefur skipulagt heimför fólksins.

Í dag mátti sjá konur og ung börn fara upp í farartæki í úthverfi Arsal. Bílarnir voru hlaðnir persónulegum munum fólksins. 

Bílarnir hófu svo förina að landamærum Sýrlands.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segist vera með starfsmenn á vettvangi en að hún skipuleggi ekki flutningana. „Okkar afstaða hefur ekki breyst. Við höfum ekki skipulagt heimflutninga fólks og við skipulögðum ekki þennan,“ segir talsmaður stofnunarinnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir því við sýrlensk stjórnvöld að fá að senda starfsmenn til þeirra bæja sem fólkið er nú að snúa aftur til. Það leyfi hefur ekki enn fengist.

Sýrlenskir flóttamenn á leið til heimalandsins frá Líbanon.
Sýrlenskir flóttamenn á leið til heimalandsins frá Líbanon. AFP

Samkvæmt opinberum tölum hefur tæp milljón Sýrlendinga leitað skjóls í Líbanon frá því að stríðið braust út fyrir sjö árum. Talið er að hópurinn sé fjölmennari.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sýrlenskir flóttamenn snúa til síns heima frá Líbanon með vilja og vitund stjórnvalda landanna. Um 500 þeirra gerðu slíkt fyrr á þessu ári. Þá hafa einhverjar þúsundir farið heim aftur án aðkomu stjórnvalda. 

Ríkisstjórn Líbanons leggur áherslu á að engir séu þvingaðir til að fara frá landinu heldur fari flóttafólkið af fúsum og frjálsum vilja. 

Flóttafólk hóf að streyma frá Sýrlandi til Arsal fljótlega eftir að stríðið braust út. Þar var slegið upp tjaldbúðum og býr fólkið flest enn við þær aðstæður á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert