Norðmaður grunaður um morð í Pakistan

AFP

Norðmaður var handtekinn í Ósló í gær grunaður um að hafa átt aðild að morði og tilraun til þess að drepa tvær manneskjur. Fastlega er gert ráð fyrir að maðurinn verði úrskurðaður í gæsluvarðhald síðar í dag. Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 11.

Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla er maðurinn, sem er ættaður frá Pakistan, á sjötugsaldri og hefur búið í Noregi í meira en fjörutíu ár. Hann er sakaður um að hafa látið drepa eiginkonu sína í Lahore í maí í fyrra en maðurinn virðist hafa verið kvæntur tveimur konum. Hann er jafnframt grunaður um að hafa átt aðild að tveimur morðum til viðbótar en lögreglan í Ósló neitar að tjá sig frekar um málið fyrr en á blaðamannafundinum.

Samkvæmt frétt TV2 hefur lögreglan rannsakað málið í eitt ár. Konan sem um ræðir var eiginkona númer tvö en þau gengu í hjónaband þegar hann fór í ferðalag til Pakistan árið 2006. Þau eiga tvö börn saman. En fyrir átti maðurinn konu í Ósló og á með henni barn. 

Samkvæmt fréttum TV2, Aftenposten og norska ríkisútvarpsins virðist sem maðurinn hafi ráðið öryggisvörð til þess að myrða eiginkonuna í Pakistan. Hann á að hafa upplýst pakistönsku lögregluna um málið og sagt að norski eiginmaðurinn hafi ráðið hann til verksins. Honum hafi verið lofað 100 þúsund rúpíum, um 80 þúsund íslenskum krónum, fyrir en hafi aðeins fengið greiddar 11 þúsund rúpíur fyrir. Það svarar til um það bil 9.300 króna.

Frétt TV2

Frétt Aftenposten

Frétt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert