Fangelsi fyrir að fela syni sína

Juana Rivas var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir að …
Juana Rivas var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir að fara í felur með syni sína tvo. AFP

Spænskir dómstólar hafa dæmt konu að nafni Juana Rivas í fimm ára fangelsi fyrir að fara í felur með syni sína tvo í stað þess að leyfa föður þeirra, sem hún sakaði um misnotkun, að umgangast þá. Þá hefur Rivas misst forræðið yfir drengjunum í sex ár og þarf að borga allan málskostnað.

Dómurinn hefur vakið mikla athygli og samkvæmt BBC hafa spænskir stjórnmálamenn og kvenréttindahópar gagnrýnt hann harðlega. Forræðisdeilan um drengina tvo hefur komið af stað miklum umræðum um kynbundið ofbeldi á Spáni.

Rivas yfirgaf heimili sitt á Ítalíu með drengina tvo árið 2016 og fór til Spánar undir því yfirskini að hitta ættingja. Í stað þess að snúa aftur lagði hún inn kvörtun á Spáni um heimilisofbeldi og hundsaði síðan fyrirskipanir dómstóla um að fara með syni sína til föður þeirra.

Atferli hennar fékk gríðarlega athygli á samfélagsmiðlum á Spáni. Hún gaf sig á endanum fram og sonum hennar var komið fyrir hjá föður þeirra á ný. Dómstólar segja að Rivas hafi ekki haft neina sönnun um meint heimilisofbeldi gegn sér og að hún hafi haldið sonum sínum frá föður þeirra ólöglega.

Þrátt fyrir að barnsfaðir hennar og fyrrverandi sambýlismaður, Francesco Arcuri, hafi áður verið sakfelldur fyrir heimilisofbeldi gegn Rivas kom fram í dómnum að Rivas hefði ekki næg sönnunargögn um misferli gegn sér síðan þá.  

Arcuri hefur þvertekið fyrir það að hafa beitt Rivas eða syni sína ofbeldi og segir að hann hafi orðið fórnarlamb fjölmiðla í umfjölluninni um málið. Fyrrverandi sambýliskona Arcuri hefur einnig tekið upp hanskann fyrir hann og sagt að hún trúi ásökunum Rivas ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert