Fórnarlamb taugagasárásarinnar jarðsett

Eitrað var fyrir Dawn Sturgess og Charlie Rowley 30. júní.
Eitrað var fyrir Dawn Sturgess og Charlie Rowley 30. júní. AFP

Útför Dawn Sturgess, konunnar sem lést í taugagasárás í Amesbury á Englandi fyrr í mánuðinum, fór fram í Salisbury í morgun. Meira en hundrað manns mættu í jarðarförina í líkbrennsluhúsi í Salisbury, þeirra á meðal Charlie Rowlie kærasti hennar sem einnig varð fyrir árásinni en komst lífs af.

Parið varð fyrir taugagaseitrun 30. júní eftir að hafa komist í snertingu við novichok-gas sem komið hafði verið fyrir í ilmvatnsglasi. Þau misstu bæði meðvitund en Charlie komst aftur til meðvitundar tveim dögum síðar. Sturgess vaknaði hins vegar aldrei og lést 8. júlí.

Um athöfnina sá séra Philip Bromiley en hann lýsti athöfninni sem „tilfinningaþrunginni“. „Þetta var mikið áfall, en það voru líka augnablik gleði og hláturs og augnablik þar sem fólk mundi hver Dawn [Sturgess] var,“ sagði séra Philip Bromiley að messu lokinni. „Hennar verður ekki bara minnst sem fórnarlambs árásarinnar heldur sem móður og einstaklings, sem við felum Guði í dag.“ Meðal þeirra sem fluttu líkræðu var ellefu ára dóttir Sturgess, sem fékk standandi lófaklapp að lestri loknum.

Taugagasárásin kom fjórum mánuðum eftir sams konar árás þar sem eitrað var fyrir Sergei Skripal, fyrrverandi rússneskum njósnara, og dóttur hans. Sú árás var gerð í Salisbury aðeins 13 kílómetra frá Amesbury og talið að sama eiturgasið, novichok, hafi verið notað í báðum tilfellum en það er hópur eiturgasa sem voru þróuð í Sovétríkjunum og Rússlandi á árunum 1971-1993.

Ríkisstjórn Breta hefur kennt rússneskum stjórnvöldum um þá árás en Rússar hafa neitað nokkrum tengslum.

Frétt BBC

Parið var flutt á spítala í Salisbury þar sem Dawn …
Parið var flutt á spítala í Salisbury þar sem Dawn lést átta dögum síðar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert