Ástralar orðnir 25 milljónir

Hafnarbrúin í Sydney er mörgum kunn. Nú deilir fólk um …
Hafnarbrúin í Sydney er mörgum kunn. Nú deilir fólk um öra fjölgun í borginni. AFP

Íbúar Ástralíu ættu að vera orðnir 25 milljónir í dag, ef marka má opinberar spár. Þessi væntanlegi áfangi vekur deilur um streymi innflytjenda inn í landið.

Þetta kemur fram í frétt BBC. Fólksfjölgun í Ástralíu er örari í ár en hún hefur verið, því innflytjendur eru orðnir fleiri. Samfara þessu hefur orðið útþensla í borgum eins og Sydney og Melbourne. Íbúum fjölgar í þéttbýli og fækkar á landsbyggðinni.

Áströlsk yfirvöld hafa lýst yfir áhyggjum af dreifingu íbúa. Ráðherra innflytjendamála, Alan Tudge, segir að dreifa verði aðfluttum betur og beina þeim annað en í stóru borgirnar. „Það eru önnur héruð í Ástralíu sem vilja endilega fá fleiri íbúa.“

Öðrum líst ekki á blikuna. Tony Abbott, fyrrverandi forsætisráðherra Ástrala, segir að Ástralar verði einfaldlega að hleypa færri inn í landið.

„Einmitt núna eru kjör stöðnuð, húsnæðisverð óviðráðanlegt og innviðirnir feysknir. Það er enginn vafi á að aukið streymi innflytjenda hafi áhrif á þessa þætti,“ sagði Tony í viðtali við útvarpsstöðina Sydney‘s 2GB fyrr á árinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert