Foreldrarnir fengu ríkisborgararétt

Viktor og Amalija Knavs á síðasta ári.
Viktor og Amalija Knavs á síðasta ári. AFP

Foreldrar bandarísku forsetafrúarinnar Melaniu Trump, sem eru slóvenskir, urðu bandarískir ríkisborgarar í dag.

Viktor og Amalija Knavs sóru eið þess efnis við athöfn í New York.

Lögmaður hjónanna, Michael Wildes, staðfesti þetta við AFP-fréttastofuna. Hann gat ekkert sagt til um hversu lengi þau þurftu að bíða eftir ríkisborgararéttinum eða hvort forsetafrúin veitti þeim aðstoð þess efnis.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tekið fast á innflytjendamálum síðan hann tók við embætti og hefur gagnrýnt lög um innflytjendur sem leyfa bandarískum ríkisborgurum að hjálpa nánum ættingum sem vilja sækja um ríkisborgararétt til frambúðar.

Forsetinn hefur sagt að slíkt kerfi steli störfum frá Bandaríkjamönnum og ógni þjóðaröryggi.

mbl.is