Maður handtekinn vegna morðsins á Mollie

Maður hefur nú verið handtekinn vegna morðsins á Mollie Tibbetts, …
Maður hefur nú verið handtekinn vegna morðsins á Mollie Tibbetts, sem hvarf er hún var úti að skokka í lok síðasta mánaðar. Skjáskot

Saksóknari í Bandaríkjunum hefur ákært mann fyrir morðið á Mollie Tibbetts, tví­tugr­i banda­rískri stúlku sem saknað hafði verið frá því hún hvarf 18. júlí sl. Greint var frá því í gær að lík Tibbetts væri fundið og segir lögregla nú mann að nafni Cristhian Bahena Rivera vera ábyrgan fyrir morðinu.

Lík sem talið er vera af Tibbetts fannst undir stafla af maískorni á akri nærri heimabæ hennar Brooklyn í gær. Síðast spurðist til Tibb­ets þegar ná­grann­ar sáu hana úti að hlaupa seint að kvöldi 18. júlí í ná­grenni heim­il­is henn­ar í Brook­lyn. Vin­ir Tibb­ets segja hana vera mik­inn hlaup­ara og skoðaði lög­regla m.a. gögn úr Fit­bit-æf­inga­úri henn­ar við leit sína.

Cristhian Bahena Rivera er sagður samstarfsfús við lögreglu og á …
Cristhian Bahena Rivera er sagður samstarfsfús við lögreglu og á að hafa vísað lögreglu á lík Mollie Tibbets. Ljósmynd/Lögreglan í Iowa

Tibb­etts var að passa hund á heim­ili kær­asta síns og bróður hans er hún hvarf og greindi banda­ríska al­rík­is­lög­regl­an FBI frá því í síðustu viku að leit­in beind­ist nú einkum að fimm stöðum í Brook­lyn: bílaþvotta­stöð, tveim­ur bónda­bæj­um, stoppistöð fyr­ir flutn­inga­bíla og heim­ili kær­asta Tibb­ets, en áður hafði verið greint frá því að kærast­inn og bróðir hans lægju ekki und­ir grun.

Alríkislögreglumaðurinn Rick Rahn sagði á fundi með fréttamönnum að Rivera væri ólöglegur innflytjandi frá Mexíkó. Hann hefði séð Tibbetts koma hlaupandi og hefði elt hana. Eftir það muni hann ekki neitt. „Ég get ekki rætt um tilefnið,“ hefur BBC eftir Rahn.

„Ég get bara sagt ykkur að svo virðist sem hann hafi elt hana, að hann hafi laðast að henni á þessum ákveðna degi og að af einhverjum ástæðum hafi hann ákveðið að ræna henni.“

Sagði Rahn Rivera vera mjög samstarfsfúsan og viljugan að ræða við lögreglu og að það hefði leitt til líkfundarins. Það var skoðun á eftirlitsmyndböndum, sem sýndu Tibbetts úti að hlaupa og bíl Rivera, sem leiddi til þess að lögregla hafði uppi á honum.

Í ákæruskjali kemur fram að Rivera sé ákærður fyrir morð, en að sögn BBC mun hann hljóta lífstíðarfangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

„Hefði aldrei átt að eiga sér stað“

Eftir að greint var frá handtökunni sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við gesti á fjöldafundi í Vestur-Virginíuríki að glæpurinn „hefði aldrei átt að eiga sér stað“.

„Þið fréttuð í dag af ólöglega innflytjandanum sem kom því miður frá Mexíkó,“ sagði Trump við fundargesti. „Og þið sáuð hvað kom fyrir þessa einstöku og fallegu ungu konu.“ Hvatti forsetinn því næst flokksbræður sína í Repúblikanaflokknum til að mæta á kjörstað vegna þingkosninga í nóvember svo herða mætti innflytjendalöggjöfina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert