Frestuðu húðstrýkingu

AFP

Íslamskur dómstóll í Malasíu hefur frestað húðstrýkingu tveggja kvenna sem voru dæmdar fyrir að vera samkynhneigðar. 

Konurnar, sem eru 22 og 32 ára, voru handteknar í bifreið í apríl af íslömskum sérsveitarmönnum í Terengganu-ríki sem er afar íhaldssamt. Konurnar voru dregnar fyrir íslamska saría-dómstólinn þar sem þær viðurkenndu að hafa brotið saría-lög sem banna samlíf fólks af sama kyni. Þær voru dæmdir til þess að þola sex högg hvor og til að greiða sekt. 

Fullnægja átti dómnum í dag en dómstjóri Terengganu saría-dómstólsins, Wan Abdul Malik Wan Sidek, greindi AFP-fréttastofunni frá því að því hefði verið frestað til 3. september af tæknilegum ástæðum.

Hann greindi ekki nánar frá því hvað varð til þess að dómnum var frestað en dagblað í Malasíu segir að enginn hafi viljað taka þátt í að framfylgja dómnum og því hafi refsingunni verið frestað af tæknilegum ástæðum. Konurnar eru lausar gegn tryggingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert