Trump varar við árás á Idlib-hérað

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varar stjórnvöld í Sýrlandi við því að gera árás á síðasta vígi uppreisnarmanna í Idlib-héraði, með aðstoð Rússa og Írana. Hann segir að slík árás geti komið af stað „mannlegum harmleik“. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, má ekki ráðast af gáleysi á Idlib-hérað. Rússar og Íranar væru að gera alvarleg mannúðarmistök með því að taka þátt í því sem gæti hugsanlega orðið mannlegur harmleikur,“ skrifaði forsetinn á Twitter. „Hundruð þúsunda manna gætu farist. Ekki láta það gerast,“ skrifaði hann jafnframt.

Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök hafa varað við því að árás á Idlib-hérað gæti komið af stað hörmungunum af stærðargráðu sem ekki hefur sést frá því átökin í Sýrlandi hófust fyrir sjö árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert