Háhyrningurinn líklega dauður

Háhyrningarnir við Kanada eru oft fullir af lífsgleði. Vísindamenn segja …
Háhyrningarnir við Kanada eru oft fullir af lífsgleði. Vísindamenn segja stofninn, tala sitt eigið tungumál. Af vef World Wildlife Fund

Árangurslaus leit hefur staðið yfir að háhyrningskú sem tilheyrir stofni í Norðvestur-Kyrrahafi og er hún nú talin af. Kýrin, sem vísindamenn kalla J50 í skrám sínum, var ekki í hópi háhyrninga úr stofninum sem vísindamenn fundu á sundi í nágrenni Race Rocks í sjónum undan vesturströnd Kanada. Í stofni staðbundna, suðlæga háhyrningsins, eru aðeins eftir um 75 dýr og er hann því í gríðarlegri útrýmingarhættu. Í sama stofni er háhyrningskýr sem synti með dauðan kálf sinn um hafið í sumar í að minnsta kosti sautján daga.

Í frétt Seattle Times, sem vel hefur fylgst með rannsóknum vísindamanna og eftirliti með stofninum, segir að í gær hafi Ken Balcomb, stofnandi Center for Whale Research, lýst því yfir að J50 væri að öllum líkindum dauð. Hann vinnur ásamt starfsmönnum banda­rísku Haf- og lofts­lags­stofn­un­ar­inn­ar, NOAA, að því að fylgjast með ferðum háhyrninganna.

Starfsmenn NOAA vilja þó ekki meina að öll von sé úti en J50 hefur verið veik um hríð og var m.a. reynt að bjarga lífi hennar með fordæmalausum aðgerðum í sumar, m.a. með því að gefa henni að éta. Talsmaður NOAA segir mikilvægt að finna J50. „Við höfum ekki enn gefið upp alla von,“ segir hann í samtali við Seattle Times.

Umfangsmikil leit hófst að J50 í gær og var hennar leitað beggja vegna hafsvæðisins milli Kanada og Bandaríkjanna þar sem háhyrningarnir halda sig. Leitað var á bátum, á þyrlum og strandlengjan gengin.

Háhyrningsfjölskyldunni hefur ekki tekist að koma kálfi á legg árum saman. Því voru mikil vonbrigði í sumar er kálfur sem fæddist háhyrningnum Tahlequah (J35) drapst aðeins hálftíma eftir fæðingu.

Ef J50 er dauð er hún annar háhyrningurinn úr hinum viðkvæma stofni sem drepst á aðeins tveimur mánuðum. 

mbl.is