Deilir við ráðherra sína um fríverslun

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Meirihluti ráðherra í ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, er hlynntur því að gera víðtækan fríverslunarsamning við Evrópusambandið í anda fríverslunarsamnings Kanada við sambandið samkvæmt frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fréttin kom í kjölfar þess að Evrópusambandið hafnaði tillögu May að samningi við sambandið vegna útgöngu Bretlands úr því sem kennd hefur verið við sveitasetur hennar Chequers og mikillar andstöðu við tillöguna heima fyrir. Ekki síst í Íhaldsflokki hennar.

Breska hugveitan Institute of Economic Affairs kynnti í gær tillögu að því með hvaða hætti hægt væri að semja við Evrópusambandið um fríverslunarsamning þannig að hagsmunir Bretlands væru tryggðir. Þar á meðal varðandi landamæri Norður-Írlands og Írlands.

Tillaga hugveitunnar er að tæknilegar lausnir verði notaðar til þess að koma í veg fyrir að tollskoðun þurfi að fara fram á landamærum Írlands og Norður-Írlands. Þar á meðal að þeir sem selji vörur yfir landamærin geti gengið frá tollamálum rafrænt fyrir fram.

Vill ekki gefa „Chequers“ upp á bátinn

May hafnaði hins vegar í dag þeirri leið að semja um fríverslunarsamning líkt og Kanada, sem ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafa lýst stuðning við og Evrópusambandið hefur þegar boðið, á þeim forsendum að slíkur samningur væri verri en enginn samningur.

Forsætisráðherrann sagði að ástæðan væri sú að Evrópusambandið gerði kröfu um það að samhliða fríverslunarsamningi yrði komið upp tollgæslu á landamærum Stóra Bretlands og Norður-Írlands til þess að koma veg fyrir slíkt á milli Írlands og Norður-Írlands.

May sagði að slíkt væri algerlega óásættanlegt. Þrátt fyrir höfnun Evrópusambandsins á Chequers-tillögu hennar og andstöðu heima fyrir hefur hún nú þvertekið fyrir að gefa hana upp á bátinn og ítrekað að tillagan sé eini kostur Bretlands í stöðunni.

Gert er ráð fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið formlega 29. mars á næsta ári. Tíminn til þess að semja um útgöngu landsins úr sambandinu styttist óðum og þykja líkurnar á útgöngu án sérstaks samnings við Evrópusambandið fara vaxandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert