Aftökur í Kína og Texas

AFP

Kínversk yfirvöld tóku í nótt af lífi mann sem myrti níu skólabörn og særði 12 til viðbótar í árás á börn sem voru á heimleið úr skóla sínum í Shaanxi-héraði í apríl. 

Zhao Zewei var dæmdur til dauða í júlí fyrir fjöldamorðin en ástæðan sem hann gaf fyrir árásinni var sú að hann væri að hefna fyrir einelti sem hann varð sjálfur fyrir í skólanum á sínum tíma.

Í Texas var síðan rúmlega fimmtugur maður, Troy Clark, tekinn af lífi í gærkvöldi en hann var dæmdur til dauða árið 1998 fyrir að hafa myrt Christina Muse, sem þá var tvítug. Clark var fíkniefnaneytandi og -sali á þessum tíma. Hann var ákærður fyrir að hafa slegið Muse og drekkt henni í baðkarinu þar sem hann taldi að hún ætlaði að segja til hans. Hann faldi líkið í fötu með steypu en líkið fannst löngu síðar. Á sama stað fannst annað lík af karlmanni. Clark neitaði sök allt til enda og segja verjendur hans að dómurinn hafi byggt allt of mikið á vitnisburði fyrrverandi unnustu hans sem breytti framburði sínum ítrekað. Í fyrstu sagði hún að sá dauði hefði myrt Muse og síðan að hún sjálf hafi drepið Muse. Að lokum sagði hún Clark hafa myrt Muse og fékk sjálf vægari refsingu í stað vitnisburðarins. 

Clark var úrskurðaður látinn klukkan 18:36 að staðartíma, klukkan 23:36 að íslenskum tíma. Síðar í dag verður Daniel Acker tekinn af lífi í Texas. Hann var dæmdur fyrir morð á unnustu sinni og hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu. Alls hafa átta verið teknir af lífi í Texas þar sem af er ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert