Vaxandi líkur á Brexit-samningi

AFP

Evrópusambandið hefur ítrekað að það sé reiðubúið að semja við Bretland um víðtækan fríverslunarsamning vegna útgöngu landsins úr sambandinu.

Þessu lýsti Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, yfir fyrir helgi. Hins vegar þýddi slíkur samningur að taka yrði upp tollgæslu á milli Stóra-Bretlands og Norður-Írlands þar sem ekki væri ásættanlegt að tollgæsla væri á landamærum Írlands, sem er í sambandinu, og Norður-Írlands, sem tilheyrir Bretlandi.

Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að ekki sé ásættanlegt að taka upp tollgæslu á milli Stóra-Bretlands og Norður-Írlands. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur lagt áherslu á að semja á grundvelli Chequers-tillögu sinnar en tillagan hefur mætt mikilli andstöðu heima fyrir auk þess sem Evrópusambandið hefur hafnað henni.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur sagt að líkurnar á að hægt verði að semja um tengsl Bretlands við sambandið eftir að Bretar hafa yfirgefið sambandið hafi vaxið síðustu daga og Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, hefur sagt að hugsanlegt sé að hægt verði að landa samningi á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert