Krónprinsinn fordæmdi morðið

Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.
Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu. AFP

Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, fordæmdi í dag morðið á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi og hét því að réttlætið næði fram að ganga, en um er að ræða fyrsta skiptið sem hann tjáir sig opinberlega um málið.

Khashoggi var myrtur í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í borginni Istanbúl í Tyrklandi í byrjun mánaðarins en sádiarabísk stjórnvöld hafa verið sökuð um að standa á bak við morðið. Þá einkum krónprinsinn sem Khashoggi hafði gagnrýnt mjög.

Mohammed bin Salman hringdi í Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, í dag og ræddi um málið við hann, en forsetinn hefur gagnrýnt Sádi-Arabíu harðlega vegna þess og krafist þess að það væri upplýst. Sagði prinsinn að málið myndi ekki skaða samskipti landanna.

„Málið er mjög sársaukafullt fyrir alla Sáda, þetta er ógeðfellt mál og enginn getur réttlætt það,“ sagði Mohammed bin Salman í ræðu á ráðstefnu í höfuðborg Sádi-Arabíu, Riyadh. „Hinir ábyrgu verða látnir axla ábyrgð sína. Að lokum mun réttlætið sigra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert