Aftaka þrátt fyrir mótmæli

Roberto Moreno Ramos.
Roberto Moreno Ramos. Ljósmynd TEXAS DEPARTMENT OF CRIMINAL JUSTICE

Mexíkói á sjötugsaldri var tekinn af lífi í Texas í nótt en hann hefur setið á dauðadeild í aldarfjórðung fyrir morð á eiginkonu sinni og tveimur ungum börnum. Dauðadómurinn hefur verið mjög gagnrýndur af stjórnvöldum í Mexíkó og mannúðarsamtökum þar sem maðurinn er bæði með heilaskaða og geðhvörf. Jafnframt var hann ekki upplýstur á sínum tíma um að hann ætti rétt á lögfræðiaðstoð í gegnum ræðismannsskrifstofu Mexíkó í ríkinu.

Roberto Moreno Ramos var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu í ríkisfangelsinu í Huntsville, Texas, samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálayfirvöldum í Texas.

Hann var dæmdur til dauða árið 1993 fyrir að hafa barið eiginkonu sína og tvö börn þeirra hjóna, sjö og þriggja ára, til bana með sleggju árið 1992. Morðin framdi hann á heimili þeirra í bænum Progresso, skammt frá landamærum Mexíkó, en þar hafði fjölskyldan búið í nokkur ár.

Ramos kom líkunum fyrir undir flísalögninni á baðherberginu í húsi þeirra og kvæntist hjákonu sinni þremur dögum síðar. Hún hafði ekki hugmynd um að hann væri kvæntur. Tveimur mánuðum síðar fundust lík fjölskyldunnar. 

Þau 25 ár sem Ramos hefur setið á dauðadeild hafa lögmenn hans sagt að hann glímdi við geðhvörf og væri auk þess með heilaskaða.

Líkt og áður sagði þá hefur verið gagnrýnt að hann hafi ekki verið upplýst um rétt sinn á lögfræðiaðstoð líkt og kveðið er á um Genfarsáttmálanum frá árinu 1963 og Bandaríkin hafa skrifað undir.

Ríkisstjórn Mexíkó sagði á mánudag að aftakan yrði alvarlegt brot á mannréttindum og alþjóðalögum. Sérfræðingar hjá Sameinuðu þjóðunum segja að aftakan væri geðþóttaákvörðun og Mannréttindaráð Ameríkuríkjanna fór fram á að Texas-ríki virti skyldur sínar gagnvart mannréttindum.

Árið 2003 fóru mexíkósk yfirvöld með mál Ramos og fleiri mál Mexíkóa (alls 50 einstaklinga) á dauðadeildum í Bandaríkjunum fyrir alþjóðaglæpadómstólinn í Haag. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þeim hafi verið neitað um rétt á aðstoð af hálfu ræðismanna Mexíkó og taka ætti mál þeirra upp að nýju fyrir bandarískum dómstólum.

Aftur á móti komst Hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu árið 2008 að Bandaríkjunum bæri ekki skylda til þess að virða niðurstöður alþjóðaglæpadómstólsins.

Síðan þá hafa fimm þessara Mexíkóa verið teknir af lífi  allir í Texas. Það sem af er ári hafa tuttugu einstaklingar verið teknir af lífi í Bandaríkjunum, þar af helmingur í Texas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert