Tilfinningarík kveðjuræða Merkel

Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata og kanslari Þýskalands, þakkar fyrir …
Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata og kanslari Þýskalands, þakkar fyrir sig. AFP

Kansl­ari Þýska­lands, Ang­ela Merkel, flutti tilfinningaríka kveðjuræðu á flokksþingi Kristilegra demókrata sem fram fer þessa dagana. Merkel greindi frá því í október að hún muni ekki gefa aftur kost á sér sem leiðtogi flokksins.

„Við verðum að halda uppi vörnum fyrir frjálslynd gildi okkar, innan frá jafnt sem utan frá,“ sagði Merkel meðal annars í ræðu sinni.

Merkel hef­ur verið leiðtogi Kristi­legra demó­krata und­an­far­in 18 ár og gegnt embætti kansl­ara Þýska­lands frá 2005. Margt hef­ur þótt benda til þess að póli­tísk sól henn­ar væri smám sam­an að setj­ast. Nú síðast ít­rekaðir ósigr­ar í héraðskosn­ing­um í land­inu. Hún hefur einnig staðfest að hún muni ekki sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri í embætti kanslara þegar kjör­tíma­bil­inu lýk­ur 2021.

Í ræðu sinni gaf Merkel í skyn að hún hyggst styðja Annegret Kramp-Karrenbauer sem eftirmann sinn en hún lofsamaði hana fyrir vel unnin störf sem forsætisráðherra Saarlands, minnsta sambandsríki Þýskalands. 

Kosið verður um næsta leiðtoga flokksins seinna í dag og er hennar helsti keppinautur Friedrich Merz, lögfræðingur og auðkýfingur. Þriðji frambjóðandinn, Jens Spahn heilbrigðisráðherra, virðist eiga minni möguleika á að ná kjöri.

Í ræðu sinni gaf Merkel í skyn að hún hyggst …
Í ræðu sinni gaf Merkel í skyn að hún hyggst styðja Annegret Kramp-Karrenbauer sem næsta leiðtoga flokksins. AFP

„Takk stjóri“

Merkel hlaut dynjandi lófatak þegar ræðunni lauk og stóðu flokksmenn og fögnuðu henni í um sex mínútur. Þá mátti sjá skilti á lofti með áletruninni: Takk stjóri.

Merkel segir þýsk stjórnmál standa frammi fyrir miklum áskorunum, svo sem loftslagsbreytingum, Brexit og að halda uppi samstöðu í Evrópu.

Þá sagðist hún vera óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að leiða flokkinn í öll þessi ár. „Framtíðin mun reynast prófsteinn á gildi okkar. Við verðum alltaf að nálgast vinnu okkar með gleði,“ sagði Merkel. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert